Einföldun leyfisveitinga góð, afnám þeirra betra

07.05.2015

IMG_3472Félag atvinnurekenda hefur skilað atvinnuveganefnd Alþingis umsögn um frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til breytinga á lögum um dýrasjúkdóma. Í frumvarpinu er lagt til að í stað þess að innflytjendur ferskra kjötvara þurfi að sækja um leyfi bæði til atvinnuvegaráðuneytisins og Matvælastofnunar verði stjórnsýslan einfölduð og Matvælastofnun fari ein með leyfisveitingarnar.

FA fagnar út af fyrir sig þessari breytingu . Hins vegar bendir félagið á að leyfisveitingakerfið til innflutnings á fersku kjöti, unnum kjötvörum og öðrum kjötvörum, sem lögin kveða á um, brýtur í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum. Innflytjendur eiga ekki að þurfa að sækja um nein leyfi til að flytja inn ferskt kjöt frá öðrum EES-ríkjum, sem staðist hefur heilbrigðiseftirlit í útflutningsríkinu.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur leyfisveitingakerfið ganga gegn EES og hyggst draga Ísland fyrir EFTA-dómstólinn vegna þess. ESA telur íslensk stjórnvöld „ekki hafa sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag megi réttlæta með þeim rökum að það sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu manna og dýra. Þau vísindalegu gögn sem íslensk stjórnvöld hafa framvísað renna ekki stoðum undir gildandi reglur heldur sýna þvert á móti að áhætta á sýkingu búfjár gegnum innflutning á fersku kjöti sé hverfandi.“

„Félag atvinnurekenda hvetur Alþingi til að innleiða í íslenzkan rétt reglur EES-samningsins um ferskt kjöt og aðrar kjötvörur. Þannig hættir íslenzka ríkið vísvitandi samningsbrotum sínum og forðast má kostnaðarsaman málarekstur fyrir EFTA-dómstólnum. Breytingin myndi sömuleiðis hafa í för með sér mikið hagræði og sparnað, jafnt fyrir ríkið og innflytjendur, og gengi enn lengra í átt til einföldunar regluverks atvinnulífsins en það frumvarp sem hér er til umfjöllunar,“ segir í umsögn FA.

Umsögn FA í heild

Nýjar fréttir

Innskráning