Eru engin takmörk fyrir skattlagningu á áfengi?

08.12.2016

Áfengisgjöld á Íslandi eru nú þegar þau langhæstu í Evrópu, samkvæmt upplýsingum sem Félag atvinnurekenda hefur aflað. Hefur félaginu raunar ekki tekizt að finna neitt land í heiminum þar sem áfengisskattar eru hærri. Engu að síður er í fjárlagafrumvarpi ársins 2017 gert ráð fyrir að áfengisgjöld hækki um 4,7%. Þar af er 2,5 prósentustiga hækkun umfram verðbólgu.

Meiri áhrif á ódýrari tegundirnar
Á síðasta ári voru áfengisgjöld hækkuð um rúmlega 20% til að mæta því að virðisaukaskattur á áfengi var lækkaður í 11% eins og á annarri mat- og drykkjarvöru. Markmiðið var að halda tekjum ríkisins af áfengissölu óbreyttum. Vegna þess að áfengisgjöldin eru föst krónutala á hvern lítra áfengis stuðlaði þessi breyting að því að ódýrari áfengistegundir hækkuðu í verði en þær dýrari lækkuðu. Sú hækkun sem lögð er til í fjárlagafrumvarpinu mun áfram ýta undir þessa þróun – ódýrari tegundir, sem almenningur kaupir fremur, hækka meira en dýrara áfengi. Þriggja lítra „belja“ af léttvíni sem hækkaði um u.þ.b. 300 krónur vegna breytinganna um síðustu áramót gæti nú hækkað um 200 krónur í viðbót.

Áfengisgjöldin orðin hærri en í Noregi
Sjá má samanburð áfengisgjalda á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum á myndinni hér á síðunni. Á myndinni er gert ráð fyrir að boðuð hækkun hafi tekið gildi hér á landi. Eins og sjá má sker Ísland sig algjörlega úr. Eingöngu Noregur er nálægt Íslandi í álagningu áfengisskatta. Styrking gengis krónunnar og áformuð hækkun áfengisgjaldsins gerir að verkum að áfengisgjöld á alla flokka áfengis eru nú hærri en í Noregi, þegar reiknað er yfir í evrur.

Þrátt fyrir að virðisaukaskattur á áfengi sé nú lægri á Íslandi (11%) en víðast hvar í Evrópu er samanlögð skattlagning ríkisins á áfengi langtum hærri hér en í öllum Evrópulöndum nema Noregi.

Samanburdur afengisgjold
Smellið á myndina til að stækka hana.

Hlutur ríkisins um og yfir 90%
Félag atvinnurekenda hefur reiknað út tvö raunveruleg dæmi um „ódýrar“ áfengistegundir og skattlagningu ríkisins á þær.

Annars vegar er um að ræða vodkaflösku, sem kostar í dag 6.999 krónur í Vínbúðinni en myndi hækka um rúmlega 200 krónur við gjaldahækkunina. Miðað við hækkun gjaldanna mun ríkið taka í sinn hlut 94% af verði flöskunnar í formi áfengisgjalds, skilagjalds, álagningar ÁTVR og virðisaukaskatts.

Vodka 1 l haekkun afengisgjalds

Hitt dæmið er af þriggja lítra „belju“ með léttvíni. Hún kostar í dag 5.499 krónur en mun eftir hækkun áfengisgjaldsins kosta 5.702 krónur. Þá verður svo komið að ríkið tekur í sinn hlut 84,1% af útsöluverðinu.

Lettvinskassi 3 l haekkun afengisgjalds

Hvar liggja mörkin?
„Skattlagning á áfengi er augljóslega komin út úr öllu korti þegar neytandinn er farinn að greiða um og yfir 90% af verðinu í ríkissjóð,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Þetta er tíunda hækkun áfengisgjalda frá hruni. Á þeim tíma hafa þau rúmlega tvöfaldast. Eru engin takmörk fyrir því hversu langt stjórnvöld telja sig geta gengið í skattlagningu á einni neysluvöru? Hversu lengi láta neytendur bjóða sér þetta?“

Ólafur segir að það sé orðið tímabært að fá fram umræður á Alþingi um það hvar mörkin liggi í skattlagningu áfengis. „Við skorum á nýtt þing að samþykkja ekki þessa vitleysu og vinda fremur ofan af þessum ofursköttum.“

Samanburður á áfengisgjöldum í Evrópu – excel-skjal

Viðtal við Ólaf Stephensen á Rás 2

Nýjar fréttir

Innskráning