Íslensk-indverska viðskiptaráðið

Logo IIVÍslensk-indverska viðskiptaráðið var stofnað að frumkvæði Félags íslenskra stórkaupmanna og ræðismanns Indlands á Íslandi hinn 4. maí 2005.

Eins og kemur fram í samþykktum ráðsins sem lagðar voru fram á stofnfundi þess þá hefur Íslensk-indverska viðskiptaráðið það verkefni að efla verslunar- og viðskiptasambönd milli Indlands og Íslands. Í því felst m.a. að veita félagsmönnum upplýsingar og ráðgjöf, miðla viðskiptasamböndum, vaka yfir viðskiptalegum hagsmunum félagsmanna og standa fyrir málþingum, félagsfundum og ráðstefnum í samræmi við tilgang félagsins.

Skömmu eftir stofnun ráðsins stóð það fyrir fjölmennu málþingi á Nordica Hotel í tilefni af opinberri heimsókn forseta Indlands sem bar yfirskriftina „Synergy & Strengths of East and West“ þar sem bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar fluttu erindi.

Framkvæmdastjóri og formaður ÍIV áttu jafnframt fund með Dr. Abdul Kalam, forseta Indlands meðan á dvöl hans stóð hér á landi. Forsetanum var kynnt starfsemi ráðsins og var skjöldur með merki ráðsins afhjúpaður á fundinum og færður forsetanum. Á fundinum sýndi forsetinn mikinn áhuga á því að rækta viðskiptatengsl á milli landanna og tjáði formanni og framkvæmdastjóra ráðsins að fjölmörg tækifæri væru til samstarfs á milli þjóðanna.

Starfsemi ráðsins felst meðal annars í kynningu á tækifærum í gagnkvæmum viðskiptum á milli Íslands og Indlands og móttöku viðskiptasendinefnda frá Indlandi.

Lög ÍIV

Framkvæmdastjóri: Ólafur Stephensen

Stjórn:
Bala Kamallakharan, Startup Iceland, formaður
Anna Hedvig Þorsteinsdóttir, Lýsi
Engilbert Hafsteinsson, WOW Air