53% telja samráð stjórnvalda við atvinnulífið lélegt

16.04.2019
Fundur ráðgjafarnefndarinnar á Grand hóteli var vel sóttur.

Rúmlega 53% fyrirtækja sem svöruðu könnun Maskínu, sem gerð var fyrir ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, telur að samráð stjórnvalda við atvinnulífið áður en reglum er breytt sé slæmt eða mjög slæmt. Rúmlega 21% telur samráðið gott eða mjög gott. Ennfremur eru um 48% fyrirtækja á því að stjórnvöld upplýsi atvinnulífið ekki nógu skilmerkilega eða með nógu góðum fyrirvara áður en nýjar reglur taka gildi. Rúmlega 24% telja hins vegar vel að upplýsingagjöfinni staðið. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á morgunverðarfundi nefndarinnar í dag.

Í máli Sigurðar Arnar Guðleifssonar, formanns nefndarinnar, er stefnt að því að könnunin verði árviss viðburður og hægt verði að nota niðurstöðurnar til að skoða þróun eftirlitsmenningar. Spurt var um afstöðu til opinberra eftirlitsstofnana sem fyrirtæki eiga í samskiptum við og sögðust forsvarsmenn ýmissa stofnana sem voru á fundinum myndu nota niðurstöðurnar til að leitast við að bæta þjónustuna.

Félag atvinnurekenda á fulltrúa í ráðgjafarnefndinni og hefur meðal annars á þeim vettvangi beitt sér fyrir einföldun regluverks atvinnulífsins, sanngjörnum og lögmætum eftirlitsgjöldum og minna íþyngjandi innleiðingu EES-reglna.

Niðurstöður könnunar Maskínu

Nýjar fréttir

Innskráning