Afnámi snakktolls fagnað – en hvers á Pringlesið að gjalda?

04.12.2015

IMG_5855Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hefur lagt til í nýju nefndaráliti að tollar verði felldir niður af snakki, þar með töldu kartöflunasli. Snakkið ber ofurtoll, eða 59%, og hefur FA barist fyrir afnámi snakktollsins um árabil.

Einsýnt er að verð til neytenda á vörum á borð við kartöfluflögur muni lækka umtalsvert við þessa breytingu, sem til stendur að gera um áramótin. Af einhverjum ástæðum nær breytingin þó ekki yfir snakk sem er framleitt úr kartöflumjöli. Snakk framleitt úr kartöflumjöli er í öðrum tollflokki og ber líka fráleitlega háan toll, eða 42%. Undir þann flokk falla vinsælar vörur eins og til dæmis Pringles-snakkið.*

„FA fagnar eindregið þessari tillögu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. „Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar viðurkennir að þessi tollur hafi verið alltof hár. Tollaniðurfellingin ætti að vera víðtækari, en með þessu er þó höggvið nýtt skarð í matartollmúrana. Þarna er viðurkennt að það er ekkert vit í að leggja ofurtolla á innflutning sem keppir ekki við neina innlenda framleiðslu. Með slíkri tollheimtu er ekki verið að vernda neitt heldur eingöngu að skaða neytendur, sem dirfast að leggja sér erlend matvæli til munns. Í því felst mikið gerræði.“

Um nokkurt skeið hefur því verið haldið fram að þessir tollar séu í raun ólögmætir. Nokkur innflutningsfyrirtæki hafa höfðað mál gegn ríkinu vegna innheimtu snakktollanna og krafist endurgreiðslu þeirra. Fyrirtækin töpuðu því máli í héraði en Ólafur telur einsýnt að sterkari rök séu fyrir því að málið vinnist í Hæstarétti þegar löggjafinn hefur viðurkennt að tollarnir hafi verið ómálefnalega háir.

Takmörkuð niðurfelling tolla á ís
Í frumvarpinu um ýmsar forsendur fjárlaga er að finna aðra tillögu um niðurfellingu matartolls, þ.e. að nokkrar tegundir af mjólkurlausum ís beri ekki tolla. Ekki var tekið mark á athugasemdum FA og fleiri samtaka um að ekki væri nógu langt gengið í niðurfellingu tollanna, en frostpinnar bera til dæmis áfram ofurtolla. „Nefndin segir að markmið breytinganna sé að „stuðla að því að þeir sem ekki neyta mjólkuríss af einhverjum ástæðum verði í sambærilegri stöðu og þeir sem neyta íss úr mjólkurafurðum“ Af hverju er þá til dæmis ís úr kókosmjólk ekki inni í upptalningunni á þeim vörum sem tollar verða felldir niður af?“ spyr Ólafur.

* Leiðrétt: Eftir að þessi frétt var birt kom í ljós að tollflokkun Pringles-snakks hefur verið breytt. Það fellur í tollflokk sem ber enga tolla, sé viðkomandi vara flutt inn frá ríkjum Evrópusambandsins. Langmest af innflutningi snakks sem búið er til úr kartöflumjöli fellur í þann tollflokk.

Nánari umfjöllun um snakktolla, ístolla og fleiri fráleita tolla á mat er að finna í nýlegri skýrslu Félags atvinnurekenda, Matartollar: Verndarstefna eða samkeppni og valfrelsi neytenda?

Nýjar fréttir

Innskráning