Brexit án samnings væri ringulreið fyrir viðskiptalífið

14.06.2019
Frá morgunverðarfundi ÍEV og FA.

Ef Bretland gengur úr Evrópusambandinu án samnings þýðir það algjöra ringulreið fyrir viðskiptalífið, sagði franski athafnamaðurinn og öldungadeildarþingmaðurinn Olivier Cadic á morgunverðarfundi FA og Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins í morgun. Cadic, sem hefur rekið fyrirtæki í Bretlandi í 22 ár, sagðist enn ekki hafa hitt breskan athafnamann sem teldi tækifæri felast í Brexit.

Cadic sagðist þeirrar skoðunar að enn vissi enginn í raun hvað fælist í „hörðu Brexit“, þ.e. útgöngu úr ESB án samnings. Hann sagði að önnur aðildarríki Evrópusambandsins yrðu að leitast við að aðstoða Bretland við að finna leið út úr Brexit. Vandamálið við þjóðaratkvæðagreiðsluna um útgöngu úr Evrópusambandinu hefði verið að enginn hefði getað útskýrt hvað fælist í útgöngunni í raun. Nú lægi fyrir 500 blaðsíðna samningur Bretlands og ESB, en breskir þingmenn hefðu ítrekað hafnað honum. Cadic sagði að ein leið til að leysa málið væri að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kostirnir væru skýrir; annars vegar útgöngusamningur Theresu May við ESB, hins vegar áframhaldandi aðild.

Íhaldsflokkurinn þarf að öðlast stuðning viðskiptalífsins á ný
Cadic sagði að ef Bretland kysi áframhaldandi aðild væri hægt að fá Breta að borðinu með öðrum ESB-ríkjum til að endurskoða starfshætti Evrópusambandsins. Mikilvægt væri að sú lausn, sem fundin væri á málinu, stuðlaði að því að sameina á ný bresku þjóðina, sem væri klofin í herðar niður vegna deilna um Brexit.

Hann sagðist ekki útiloka að jafnvel þótt Boris Johnson, sem barðist hart fyrir Brexit, yrði leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra myndi hann snúa við blaðinu og bakka út úr Brexit. Það væri ekki síst nauðsynlegt vegna þess að Íhaldsflokkurinn þyrfti að öðlast stuðning viðskiptalífsins á ný, en hann hefði misst hann vegna Brexit-stefnu sinnar.

Olivier Cadic til hægri. Til vinstri er Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA sem stýrði fundi.

Enginn athafnamaður sér tækifæri í Brexit
Cadic sagði að það myndi þýða ringulreið fyrir viðskiptalífið ef Bretland færi úr ESB án samnings. Tafir vegna tollafgreiðslu á landamærum myndu þýða tuga kílómetra biðraðir og umferðartruflanir bæði í Bretlandi og Norður-Frakklandi. Atriði á borð við lyfjadreifingu til heilbrigðisstofnana gætu lent í uppnámi. Það væri ábyrgðarleysi af stjórnvöldum að láta slíkt gerast.

Olivier Cadic hefur verið atvinnurekandi og athafnamaður frá tvítugu. Hann flutti fyrirtæki sitt til Bretlands árið 1996. Svar hans við spurningu um hvort hann hefði hitt breskan athafnamann sem sæi tækifæri í Brexit, til dæmis vegna þess að þá væri hægt að gera víðtækari fríverslunarsamnings var einfalt: Nei. Hann sagði að jafnvel athafnamenn, sem hefðu stutt útgöngu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, hefðu fært rekstur sinn frá Bretlandi síðan.

Ekki Brexit í októberlok
Cadic sagðist hafa spáð því að Bretland yrði ekki farið úr Evrópusambandinu 29. mars á þessu ári, eins og síðar varð raunin. Nú hefur verið settur nýr frestur til októberloka. Cadic sagðist sannfærður um að sá frestur myndi einnig líða án útgöngu Breta, þrátt fyrir yfirlýsingar Boris Johnson um að þá yrðu Bretar farnir úr ESB, með eða án samnings.

Nýjar fréttir

Innskráning