Einn matartoll mátti afnema: Lagt til að mjólkurlaus ís verði tollfrjáls

15.09.2015
IMG_5364
Ís úr kókos-, soja- og möndlumjólk í frysti verslunar í Reykjavík. Mynd: Félag atvinnurekenda

Fjármálaráðherra hefur lagt til við Alþingi að tollar verði felldir niður af nokkrum tegundum af mjólkurlausum ís. Þetta kemur fram í bandorminum svokallaða sem fylgir fjárlagafrumvarpi ársins og er jafnframt eina tillaga ráðherra um að tollar af mat verði lækkaðir eða felldir niður. Frumvarpið er til fyrstu umræðu á Alþingi í dag.

Í greinargerð fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu segir að þessi breyting sé gerð vegna erinda sem ráðuneytinu hafi borist og hafi rík tengsl við lagabreytingu sem gerð var í fyrra, en þá voru tollar og vörugjöld felld niður af nokkrum staðgengdarvörum kúamjólkur, „þ.e. drykkjarvörum úr sojabaunum, hrísgrjónum, höfrum, hnetum og/eða möndlum, í því skyni að gera þann hóp fólks, sem ekki gat neytt mjólkur, m.a. vegna mjólkurofnæmis eða mjólkuróþols, jafnsettan þeim sem neytti mjólkur.“

Þessi breyting náði ekki til tilbúinna matvara eins og t.d. íss úr umræddum hráefnum. „Könnun ráðuneytisins leiddi í ljós að umtalsverður munur er á smásöluverði hefðbundins rjómaíss og íss sem er að meginuppistöðu búinn til úr sojabaunum, hrísgrjónum, hnetum o.þ.h. og er því lagt til í þessu frumvarpi að innfluttur tilbúinn ís úr framangreindum innihaldsefnum verði almennt tollfrjáls frá 1. janúar 2016 að telja,“ segir í frumvarpinu.

Alþingi gangi lengra
Félag atvinnurekenda fagnar þessari tillögu, enda hefur félagið á undanförnum árum ítrekað bent á fáránleika þess að leggja verndartolla á innfluttar matvörur sem alls ekki eru framleiddar á Íslandi og eiga sér enga samsvörun í íslenskum landbúnaði.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, hvetur Alþingi hins vegar til að ganga lengra í þessu máli. „Í fyrsta lagi er þessi listi yfir innihaldsefni mjólkurlauss íss ekki tæmandi. Hér er til dæmis fluttur inn ís úr kókosmjólk og vandséð af hverju hann ætti ekki að vera tollfrjáls líka. Í öðru lagi virðist áfram gert ráð fyrir að tollar leggist áfram af fullum þunga á ís sem inniheldur enga mjólk eða mjólkurlíki af neinu tagi, heldur er búinn til úr vatni, sykri, litarefnum og bragðefnum, til dæmis frostpinnar og sorbet af ýmsu tagi. Sú tollheimta verndar nákvæmlega ekki neitt og því er algerlega fráleitt að íslenskir neytendur séu að borga verndartolla af vatni, litarefnum og bragðefnum sem eiga ekkert skylt við íslenskan landbúnað,“ segir Ólafur.

Hann segir breytinguna jafnframt ánægjulega af þeim sökum að hér örli á viðurkenningu stjórnvalda á því að ekki eigi að leggja verndartolla á matvöru sem eigi sér enga samsvörun í innlendri búvöruframleiðslu.

Nýjar fréttir

Innskráning