„Eins gott að vera tilbúin“

05.03.2020

Stórar verslanakeðjur, bæði hér á landi og erlendis, eru byrjaðar að gera kröfur um að framleiðendur og heildsalar skrái upplýsingar um vörur sínar í Gagnalaug GS1, sem er gagnagrunnur fyrir vöruupplýsingar, meðal annars til þess að vefverslanir uppfylli Evrópureglur um að þær veiti upplýsingar um innihald vöru, ofnæmisvalda o.fl. „Ef stór verslanakeðja gerir kröfu um að upplýsingarnar séu í gagnalaug er eins gott að vera tilbúin,“ sagði Sigurjón Stefánsson, deildarstjóri tölvudeildar Sláturfélags Suðurlands, á fundi FA um Gagnalaug GS1 í gær.

Í myndbandinu hér að ofan er gagnsemi gagnalauga í alþjóðaviðskiptum útskýrð.

Krafa um upplýsingar fyrir neytendur drifkrafturinn
Benedikt Hauksson, framkvæmdastjóri GS1 Ísland, fjallaði um gagnalaugar almennt og sagði tugi slíkra starfrækta á heimsvísu. Benedikt sagði gagnalaugar í Evrópu hafa tekið við sér eftir að sett voru skilyrði um að upplýsingar um næringargildi og ofnæmisvalda vara kæmu fram í netverslunum. Sú krafa Evrópusambandsins væri núna að mörgu leyti drifkrafturinn í þróun gagnalauga.

Benedikt tók ávinning af notkun Gagnalaugar saman á þessari glæru.

Benedikt benti á að í dag væri flæði gagna á milli viðskiptaaðila, t.d. framleiðenda/birgja og heildsala eða heildsala og smásala ekki nógu gott og of mikið um rangar vöruupplýsingar. Sama ætti við um flæði upplýsinga frá birgjum og verslunum til neytenda, t.d. um innihald vöru, ofnæmisvalda, vottanir, upprunaland o.s.frv. Fyrirtæki gætu einnig notað gagnalaugar til að miðla lögbundnum upplýsingum til opinberra aðila.

Benedikt sagði að dæmi væru nú þegar um að íslensk fyrirtæki hefðu ekki getað komið vöru sinni í sölu á erlendum mörkuðum nema að vera með vöruupplýsingarnar skráðar í gagnalaug. „Þetta er ekki samkeppnismál, en gífurlegt hagsmunamál fyrir alla í virðiskeðjunni. Ég myndi hafa áhyggjur af framtíð þeirra fyrirtækja sem stökkva ekki á þennan vagn,“ sagði Benedikt.

Flækjustig fylgir örmarkaði
Kristján Tryggvi Högnason, sérfræðingur hjá Gagnalaug ehf., fór yfir ýmis tæknileg atriði varðandi Gagnalaug GS1. Hann sagði að í mörgum tilvikum væru fyrirtæki bæði þiggjendur og veitendur gagna. Það innifæli ákveðið flækjustig að vera örmarkaður með eigið tungumál. Íslensk heildsala gæti til dæmis viljað bæta upplýsingum á íslensku við gögn frá erlendum birgja og þyrfti þá í raun að endurútgefa vöruupplýsingarnar og taka um leið ábyrgð á þeim. Slíkt væri handavinna og gerðist ekki sjálfkrafa.

Fram kom í umræðum á fundinum að sumir erlendir birgjar væru ekki reiðubúnir að útbúa upplýsingar sérstaklega fyrir íslenskan markað. Benedikt og Kristján töldu að draga myndi úr því vandamáli eftir því sem notkun á gagnalaugum ykist og skilningur á mikilvægi þeirra yrði útbreiddari.

Sigurjón Stefánsson hjá Sláturfélagi Suðurlands, félagsmanni FA.

Upplýsingarnar uppfærðar daglega
Sigurjón Stefánsson hjá SS fjallaði um reynslu birgja af notkun Gagnalaugar GS1 og sagði hana í grundvallaratriðum góða. SS er í senn framleiðandi, útflytjandi og innflytjandi vara og sagði Sigurjón að Gagnalaug nýttist til að miðla upplýsingum til annarra notenda, bæði hér og erlendis og væru allar upplýsingar um vörur félagsins uppfærðar daglega. Með því að miða vinnubrögðin við Gagnalaug hefði náðst fram mikil einföldun, en vinnan í upphafi væri talsverð.

Sigurjón sagði að með því að nýta Gagnalaug væri tryggt að gögn um vörur félagsins væru á einum stað, geymd á einn máta og viðskiptavinirnir gætu treyst því að þau væru rétt. „Ég spyr stundum: Af hverju var þetta ekki komið fyrir 20 árum?“ sagði Sigurjón.

Hann sagði að í sumum tilvikum hefðu fyrirtæki ekki pláss í núverandi vörukerfum sínum fyrir allar þær upplýsingar sem viðskiptavinir gerðu kröfu um eða væru lögbundnar. Í slíkum tilvikum gæti Gagnalaug jafnvel nýst sem vörustjórnunarkerfi.

Glærur Benedikts
Glærur Kristjáns
Vefur GS1 Ísland

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning