Ekki láta #metoo-málin danka

19.09.2018

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, sagði í þættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi að fyrirtæki og stofnanir gætu lært af máli Orkuveitunnar, þar sem framkvæmdastjóri var rekinn vegna „óviðeigandi hegðunar“ gagnvart starfsmönnum, að láta mál sem vörðuðu kynferðislega áreitni og ofbeldi ekki danka heldur taka á þeim strax.

Ólafur ræddi um mál OR og #metoo-byltinguna við Lindu Blöndal dagskrárgerðarmann ásamt Huldu Ragnheiði Árnadóttur, stjórnarkonu í Félagi kvenna í atvinnulífinu. Hann sagði mikilvægt að fyrirtæki innprentuðu starfsmönnum sínum gildi gagnkvæmrar virðingar. FA hefði lagt mikla áherslu á það við félagsmenn sína að viðbúnaður vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustöðum væri í lagi. Bæði mögulegir þolendur og gerendur slíkra brota þyrftu að vita fyrirfram í fyrsta lagi að slík hegðun væri ekki í boði, í öðru lagi hvernig ætti að kvarta undan henni og í þriðja lagi hverjar afleiðingar hennar væru.

„Ef fyrirtæki og stofnanir í landinu geta lært eitthvað af þessu máli, þá er það að láta svona mál ekki danka. Það er ekki síst það sem er að koma Orkuveitunni í koll, sem sagt að það hafi verið vitneskja um framkomu þessa yfirmanns í eitt og hálft ár. Að láta það danka er eitt af því sem lætur fyrirtækið líta afskaplega illa út,“ sagði Ólafur í þættinum. „Nú vitum við auðvitað að það eru mörg fleiri svona dæmi í fyrirtækjum og stofnunum víða, þannig að ef maður ætti að ráðleggja stjórnendum og stjórnarmönnum í þessum fyrirtækjum eitthvað, þá er það þetta: Ef þið sitjið uppi með vitneskjuna, gerið þá eitthvað í málinu núna og takið á því. Gamla reglan í almannatengslum er: Segðu söguna sjálfur og vertu þá tilbúinn að segja hana alla, frekar en að láta aðra segja hana fyrir þig.“

Hægt er að horfa á þáttinn í heild í spilaranum hér að neðan.

Nýjar fréttir

Innskráning