FA gagnrýnir áform um nýjan sykurskatt

24.06.2019

Félag atvinnurekenda geldur varhug við áformum um nýjan sykurskatt og fleiri breytingar á skattlagningu matvæla, sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur kynnt fyrir ríkisstjórninni og greint var frá í fréttum Stöðvar 2 í gær. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, gagnrýndi þessar skattatillögur í viðtali á Rás 2 í morgun.

Þrjú skattþrep auk vörugjalda
Ólafur benti á að undanfarin ár hefði náðst verulegur árangur í að einfalda kerfi neysluskatta, afleggja vörugjöld og skattleggja alla matvöru í sama þrepi virðisaukaskatts. Að mati FA ætti að stefna að einu, lágu virðisaukaskattsþrepi fyrir allar vörur og þjónustu. Tillögur Landlæknis gengju þvert gegn þessu og myndu flækja skattkerfið á ný með tilheyrandi flækjustigi, óhagræði og umstangi fyrir fyrirtæki og hættu á undanskotum frá skatti. Tillögur Landlæknis ganga út á að færa sykraðar vörur í hærra virðisaukaskattþrep en „hollustu“, t.d. grænmeti og ávexti, í lægra þrep. Þá eru aftur orðin til þrjú virðisaukaskattþrep í matvöru, en auk þess leggur embættið til ný vörugjöld þannig að gosdrykkir og sælgæti hækki í verði um 20%.

Af hverju ekki skattalækkun á hlaupaskóm?
Ólafur sagði ýmislegt jákvætt í aðgerðaáætlun, sem Landlæknisembætti hefur unnið og heilbrigðisráðherra kynnti í ríkisstjórn, þar á meðal ákvæði um upplýsingar og hvatningu til bæði verslana og neytenda til að stuðla að hollari neysluvenjum. Sjá mætti ýmis dæmi um að verslanir hefðu breytt uppröðun vara þannig að t.d. ávöxtum væri frekar haldið fram á kostnað sælgætis. Ólafur varaði hins vegar við því að ríkisvaldið færi að setja reglur um uppröðun vara í verslunum og hafa eftirlit með henni.

Ólafur tók undir það að sykurskatturinn gæti talist forsjárhyggja og sagði: „Það er bara svo óskaplega erfitt þegar stjórnvöld eru farin að ákveða fyrir okkur hvað er hollt og hvað er óhollt og breyta verðinu á hlutum til að stýra neyslunni. Hvar endar það? Ef við ætlum að leggja á skatta eftir þessu, af hverju eru þá ekki háir skattar á sjónvörpum? Af hverju eru ekki lágir skattar á hlaupaskóm og reiðhjólum, og svo framvegis? Þetta er röksemdafærsla sem endar bara strax úti í skurði.“

Sykurneysla minnkar án ríkisafskipta
Samkvæmt rannsókn á áhrifum sykurskattsins sem lagður var á árin 2014-2015 hafði hann engin áhrif á neyslu sykraðra vara og skilaði eingöngu auknum tekjum í ríkissjóð. Ólafur benti einnig á að reynslan af sykurskatti í öðrum ríkjum væri mjög misvísandi. Á gosdrykkjamarkaði hefur þróunin undanfarin ár verið sú að hlutfall neyslu sykraðra drykkja hefur minnkað hratt, á sama tíma og hlutfall vatnsdrykkja hækkar ört. Þessi breyting hefur orðið til vegna breyttra neysluhátta neytenda og breytinga fyrirtækja á vöruframboði sínu til að mæta kröfum neytenda, alveg án afskipta ríkisins. Breytingin á neysluháttum er meiri en í ýmsum ríkjum sem hafa lagt á sykurskatt. „Nú er hægt að velta því fyrir sér, ef sykurskatturinn hefði verið lagður á lengur – myndu stjórnvöld þakka sykurskattinum þessa þróun? Mér finnst ekki ólíklegt að einhverjir hjá Landlæknisembættinu myndu berja sér á brjóst og segja: Hér var sykurskattur, þetta varð þróunin, en staðreyndin er sú að þróunin varð án sykurskatts. Við höllumst nú að því að það eigi bara að treysta fólki til að taka ákvarðanir um sína neyslu sjálft,“ sagði Ólafur.

Ólafur benti á að samkvæmt gögnum Landlæknisembættisins sjálfs væri eitthvað sem ekki gengi upp í greiningu og tillögum embættisins. Þannig hefði tíðni lífsstílstengdra sjúkdóma á borð við offitu aukist á síðustu ár, á sama tíma og sykurneysla á mann á Íslandi hefði minnkað úr um 53 kílóum á mann á árunum rétt fyrir aldamótin í tæplega 42 kíló árið 2014. „Hið beina orsakasamband á milli offitusjúkdómanna og sykurneyslu á mann er að minnsta kosti eitthvað flókið, ef það er til staðar,“ sagði Ólafur.

Viðtal við Ólaf Stephensen – hefst á 1.11.44

Nýjar fréttir

Innskráning