 Félag atvinnurekenda leggst gegn því að Markaðsráði kindakjöts verði veitt undanþága frá samkeppnislögum til að efna til samstarfs sláturleyfishafa um útflutning á lambakjöti. Í svari við umsagnarbeiðni Samkeppniseftirlitsins bendir FA á að ávinningur neytenda af samstarfinu sé enginn, þvert á móti sé það þeim til tjóns vegna þess að verði sé haldið uppi. Skilyrði fyrir beitingu 15. greinar samkeppnislaga séu því ekki uppfyllt.
Félag atvinnurekenda leggst gegn því að Markaðsráði kindakjöts verði veitt undanþága frá samkeppnislögum til að efna til samstarfs sláturleyfishafa um útflutning á lambakjöti. Í svari við umsagnarbeiðni Samkeppniseftirlitsins bendir FA á að ávinningur neytenda af samstarfinu sé enginn, þvert á móti sé það þeim til tjóns vegna þess að verði sé haldið uppi. Skilyrði fyrir beitingu 15. greinar samkeppnislaga séu því ekki uppfyllt.
Í beiðni Markaðsráðs kindakjöts um undanþágu kemur fram að gert er ráð fyrir að samstarf sláturleyfishafa feli í sér að þeir skuldbindi sig til að flytja út 35% af framleiðslu sinni. Þá greiði þeir Markaðsráðinu útflutningsgjald ef þeir standi ekki við þá skuldbindingu.
Í bréfi FA til Samkeppniseftirlitsins er bent á að í raun sé ekkert skilyrða 15. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 uppfyllt til að hægt sé að fallast á undanþágu frá bannreglu 10. gr. laganna. „Einhvers konar samstarf um markaðssetningu kann að vera lögmætt og má í því samhengi vísa til þess ágæta starfs sem unnið er á vettvangi Íslandsstofu til að markaðssetja og kynna íslenskt lambakjöt erlendis. Það sama á ekki við um annað samstarf, sér í lagi skiptingu markaða og samkomulag um að takmarka vöruframboð á markaði sem mun halda uppi verði,“ segir í bréfi FA.
„Hugmyndir markaðsráðsins um útflutningsskyldu, sem lögð verði á sláturleyfishafa, eru stórkostlega gallaðar og ólögmætar. Þær munu eingöngu skaða hagsmuni neytenda. Þessar hugmyndir þjóna að meginstefnu því markmiði að halda uppi verði á innlendum markaði með því að skerða framboð. Slíkt er ótækt. Þetta er óhjákvæmilega til tjóns fyrir neytendur og felur ekki í sér neinn ábata þeim til handa. Eru því aldrei uppfyllt þau skilyrði um sanngjarna hlutdeild neytenda sem áskilin eru í b. lið 1. mgr. 15. gr. samkeppnislaga,“ segir í bréfi FA.
Bréf FA til Samkeppniseftirlitsins
 
								