FA og SFÚ kalla eftir afstöðu ráðherra til samkeppnishindrana í sjávarútvegi

07.12.2015

Fiskflök í kassaFélag atvinnurekenda og samstarfsfélag þess, Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) hafa ritað Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra bréf og farið fram á afstöðu ráðherrans til tillagna sem Samkeppniseftirlitið setti fram fyrir rúmum þremur árum, um það hvernig draga mætti úr samkeppnishindrunum í sjávarútvegi.

Samkeppniseftirlitið beindi álitinu til sjávarútvegsráðherra að aflokinni rannsókn í framhaldi af kvörtun SFÚ. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekkert aðhafst allan þennan tíma vegna álits samkeppnisyfirvalda. Í tvö og hálft ár þar af hefur núverandi ráðherra setið í embætti.

„FA og SFÚ lýsa vonbrigðum og undrun yfir því að ráðherra hafi kosið að aðhafast ekkert til að hrinda tilmælum Samkeppniseftirlitsins í framkvæmd, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir og ábendingar. Aðgerðaleysið er vonandi ekki til marks um að stjórnvöldum standi á sama um samkeppnishindranir í sjávarútveginum og horfi framhjá þeirri augljósu staðreynd að ekki sitja öll sjávarútvegsfyrirtæki við sama borð, segir í bréfinu sem Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, og Jón Steinn Elíasson, formaður SFÚ, undirrita.

Fiskvinnsla2Tvenns konar samkeppnishindranir
Í áliti Samkeppniseftirlitsins var fjallað annars vegar um samkeppnisstöðu útgerða sem ekki stunda fiskvinnslu og hins vegar fiskvinnslufyrirtækja sem ekki stunda jafnframt veiðar á sjávarafla, gagnvart lóðrétt samþættum útgerðum sem bæði stunda veiðar og vinnslu. Að mati SE hefur aðstöðumunur þessara fyrirtækja tvenns konar samkeppnishindranir í för með sér.

Annars vegar hafa lóðrétt samþætt útgerðarfélög hvata til að gefa upp sem lægst verð á afla í innri viðskiptum á milli útgerðarhluta og vinnsluhluta fyrirtækisins. Eftir því sem verð á aflanum sem seldur er til fiskvinnslu í eigu útgerðarfyrirtækis er lægra þeim mun lægri verður launakostnaður viðkomandi útgerðar og  hafnargjöld af lönduðum afla. Bæði aflahlutdeild sjómanna og hafnargjöld miðast við uppgefið aflaverðmæti. Af framangreindu leiðir einnig að minni sjávarafli fer um fiskmarkaði en ella, sem skekkir verðmyndun á mörkuðum.

Hins vegar felst samkeppnishindrun í því að mati SE að samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er einungis heimilt að framselja aflaheimildir á milli aðila sem eiga og reka fiskiskip. Sú tilhögun veldur því að aðilar sem stunda fiskvinnslu en enga útgerð eru í verri aðstöðu en lóðrétt samþætt útgerðarfélög til að verða sér út um hráefni. Þetta þekkja aðildarfyrirtæki SFÚ af eigin raun.

Fjórar leiðir til að bregðast við
Í áliti Samkeppniseftirlitsins er mælst til þess að ráðherra beiti sér fyrir því að dregið verði úr þeim samkeppnislegu vandamálum sem leiða af lagaumhverfi sjávarútvegs að þessu leyti. Að mati stofnunarinnar eru að minnsta kosti fjórar leiðir færar til að draga úr samkeppnishindrunum.

  1. Beita sérstökum milliverðlagningarreglum. Milliverðlagningarreglur hafa það að markmiði, í þessu tilviki, að verðlagning í innri viðskiptum á milli útgerðar- og fiskvinnsluhluta lóðrétt samþættrar útgerðar verði eins og um viðskipti milli tveggja óskyldra aðila sé að ræða.
  2. Koma í veg fyrir að skip útgerðar sem ekki er samþætt greiði hlutfallslega hærri hafnargjöld með því að miða aflagjöld hafna við önnur hlutlæg viðmið, t.d. landað magn eða fiskverð sem væri ákveðið af óháðum opinberum aðila.
  3. Ráðherra getur breytt hinu lögákveðna fyrirkomulagi laga um Verðlagsstofu skiptaverðs þess efnis að útgerðarmenn komi með beinum hætti að ákvörðun um svokallað Verðlagsstofuverð sem útgerðir notast við í innri viðskiptum á milli útgerðarhluta og fiskvinnsluhluta fyrirtækjanna.
  4. Heimildir til kvótaframsals verði auknar en slík breyting væri til þess fallin að jafna aðstöðumun fiskvinnslna án útgerðar gagnvart fiskvinnslu samþættra útgerða til að verða sér út um hráefni til vinnslunnar.

Bréf FA og SFÚ til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Álit Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2012

Nýjar fréttir

Innskráning