FA og utanríkisráðuneytið undirrita samstarfssamning vegna millilandaviðskiptaráða

02.06.2021
Ólafur Stephensen og Guðlaugur Þór Þórðarson skrifa undir samninginn. Að baki þeim standa Arnar Atlason, stjórnarmaður í ÍEV, Bala Kamallakharan, formaður ÍIV, Hrönn Margrét Magnúsdóttir, stjórnarmaður í ÍKV og Guðmundur R. Sigtryggsson, formaður ÍTV.

Félag atvinnurekenda og utanríkisráðuneytið undirrituðu í dag samning um samstarf á sviði utanríkisviðskipta Íslands á markaðssvæðum millilandaviðskiptaráða FA. Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra undirrituðu samninginn í utanríkisráðuneytinu, að viðstöddum fulltrúum viðskiptaráðanna fjögurra, Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins, Íslensk-indverska viðskiptaráðsins, Íslensk-taílenska viðskiptaráðsins og Íslensk-evrópska verslunarráðsins.

Í samningnum kemur fram að aðilar séu sammála um að viðhalda og dýpka það góða samstarf sem þeir hafa átt undanfarin ár um eflingu utanríkisviðskipta Íslands. Á það sérstaklega við um þau fjögur markaðssvæði sem FA rekur viðskiptaráð fyrir, þ.e. Kína, Indland, Taíland og Evrópusambandið.

Árlegir fundir með sendiherrum og ráðherra
FA og ráðuneytið munu starfa saman að því að gæta hagsmuna atvinnulífsins á ofangreindum mörkuðum, svo sem með skipulagningu gagnkvæmra heimsókna viðskiptasendinefnda og með skipulagningu funda og ráðstefnuhaldi.

Aðilar munu starfa saman að hagsmunagæslu atvinnulífsins við gerð fríverslunarsamninga eða annarra viðskiptasamninga við viðkomandi markaðssvæði, svo og vegna reglubundins samráðs við stjórnvöld á viðkomandi markaðssvæðum.

Samráð verður milli ráðuneytisins og FA eftir þörfum um vandamál eða hindranir sem upp geta komið í viðskiptum Íslands og viðkomandi markaðssvæða.

Æ nánara samstarf við atvinnulífið
Sendiherra Íslands sem fer með fyrirsvar gagnvart viðkomandi markaðssvæði mun eiga fund með stjórn viðkomandi viðskiptaráðs áður en starf hans hefst og árlegan fund eftir það. Stjórnir viðskiptaráðanna og viðskiptafulltrúar Íslands í viðkomandi sendiráðum munu jafnframt eiga með sér reglulegt samráð. Þá verður efnt til árlegs fundar utanríkisráðherra með framkvæmdastjóra og formönnum viðskiptaráðanna.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA segir að samningurinn sé fagnaðarefni og sé enn eitt skrefið á braut nánara samstarfs utanríkisráðuneytisins og atvinnulífsins. „Á síðustu árum hefur verið mörkuð sú stefna að utanríkisþjónustan sé í stuðnings- og þjónustuhlutverki við atvinnulífið í alþjóðlegum viðskiptum. Samstarf okkar við utanríkisráðuneytið verður æ nánara og þessi samningur er liður í því,“ segir Ólafur.

Samningur FA og utanríkisráðuneytisins

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning