FA óskar eftir skýrum línum um lokunarstyrki

05.10.2020

Félag atvinnurekenda hefur sent heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra erindi, þar sem hvatt er til þess að stjórnvöld greini þegar í stað frá því hvernig staðið verði að aðstoð við fyrirtæki, sem skikkuð eru til að loka starfsemi sinni vegna sóttvarna með nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra, sem var birt í gærkvöldi.

Í reglugerðinni er kveðið á um að loka skuli skemmtistöðum, krám og spilasölum frá og með deginum í dag. Enn fremur skal húsnæði líkamsræktarstöðva lokað almenningi og er þeim þannig í raun gert að hætta rekstri næstu vikurnar.

„Félag atvinnurekenda telur mikilvægt að samhliða þessum mjög svo íþyngjandi aðgerðum gagnvart tilteknum hópum fyrirtækja gefi stjórnvöld út með skýrum hætti hvort og þá hvernig verði komið til móts við fyrirtæki sem neyðast til að hætta rekstri í þessari bylgju faraldursins; hvort veittir verði lokunarstyrkir eins og í fyrstu bylgjunni eða komið til móts við fyrirtækin með öðrum hætti,“ segir í erindi FA. Þar er enn fremur rifjað upp að frestur til að sækja um lokunarstyrk vegna heimsfaraldursins samkvæmt núgildandi lögum rann út 1. september sl. og frestur til að sækja um viðbótarlokunarstyrk rann út 1. október.

„Að mati FA eru skýrar línur í þessu efni mikilvægar, bæði til að tryggja skilvirkni sóttvarnaraðgerða sem stjórnvöld hafa mælt fyrir um, og til að veita atvinnurekendum í viðkomandi greinum meiri fyrirsjáanleika um hvers vænta má um stuðningsaðgerðir stjórnvalda. Skjót vinnubrögð skipta hér miklu máli,“ segir í bréfi FA til ráðherranna.

Bréf FA til fjármálaráðherra

Nýjar fréttir

Innskráning