Félagsmenn ánægðir með baráttu FA: Félagið aldrei sýnilegra

Smelltu á myndina til að stækka hana.

Félagsmenn FA eru almennt ánægðir með baráttu félagsins í þeim málum sem það lét til sín taka á opinberum vettvangi í fyrra. Tæplega 80% félagsmanna telja félagið sýnilegt í baráttu sinni. Samkvæmt tölum Fjölmiðlavaktar Creditinfo hefur FA heldur aldrei verið meira í fréttum en síðastliðið ár, en þá birtust samtals 610 fréttir af félaginu í fjölmiðlum, eða rúmlega 2,3 fréttir að meðaltali hvern virkan dag ársins.

Smelltu á myndina til að stækka hana.

Félagsmenn voru spurðir um afstöðu sína til baráttu FA í ellefu af þeim málum sem félagið lét til sín taka í fyrra. Niðurstöðurnar má sjá á meðfylgjandi mynd. Mest ánægja er með baráttu félagsins fyrir því að eftirlitsgjöld ríkisins séu í samræmi við raunkostnað, en þar segjast samtals 88% þeirra sem svöruðu spurningunni ánægðir eða mjög ánægðir. Þá segjast 78% ánægð með baráttuna fyrir lækkun tryggingagjalds og annarra fyrirtækjaskatta.

Í öllum öðrum málum er ánægjan með baráttu félagsins um og yfir 70%, nema hvað varðar baráttuna gegn sykursköttum og blómatollum, en þar er „hvorki né“-hópurinn hlutfallslega stærstur og ánægjan á bilinu 57-68%. Um 10% félagsmanna segjast óánægðir eða mjög óánægðir með baráttuna fyrir lækkun tolla á búvörur, fasteignagjalda fyrirtækja og tryggingagjalda og annarra fyrirtækjaskatta og telja augljóslega mega gera betur.

Um 80% telja félagið sýnilegt og með góða ímynd
Samtals sögðust 79% félagsmanna sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu að FA væri sýnilegt í baráttu sinni fyrir félagsmenn. Sambærilegt hlutfall, eða 81% er sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu að ímynd félagsins sé jákvæð.

Könnun FA var gerð dagana 16.-23. janúar sl. Könnunin var send í tölvupósti til 157 fyrirtækja með beina félagsaðild og svöruðu 54 eða 34,4%. Undanfarin ár hefur svarhlutfallið legið á bilinu 31-64%. Ekki er hægt að rekja svörin til einstakra svarenda eða fyrirtækja.

Lítið sýnishorn af umfjöllun fjölmiðla um Félag atvinnurekenda og baráttumál þess á árinu 2019. Smelltu á myndina til að stækka hana.