Fjármálaráðherra gestur á 2000. stjórnarfundi FA

15.03.2019
Frá vinstri: Bjarni Benediktsson, Magnús Óli Ólafsson formaður FA, Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA og Guðmundur R. Sigtryggsson stjórnarmaður.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var gestur á stjórnarfundi Félags atvinnurekenda í dag. Fundurinn markaði tímamót, enda tvöþúsundasti fundur stjórnar félagsins, sem starfað hefur í rúm 90 ár. Þetta var jafnframt fyrsti fundur nýrrar stjórnar félagsins, sem kjörin var á aðalfundi í síðasta mánuði.

Ráðherra ræddi við stjórnarmenn um ýmis mál sem FA hefur tekið upp gagnvart stjórnvöldum. Á meðal umræðuefna voru staðan á vinnumarkaði, álagning fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði og þróun tryggingagjaldsins undanfarin ár.

Boðar einföldun regluverks
Stjórnarmenn hvöttu ráðherra til að fylgja eftir eftirlitsgjaldaskýrslu FA frá 2017, en hún er í raun leiðarvísir um það hvernig má tryggja gagnkvæma hagsmuni ríkisins og fyrirtækja af því að eftirlitsgjöld séu lögmæt og sanngjörn, þannig að forðast megi málsóknir á hendur ríkinu.

Líflegar umræður urðu um einföldun regluverks atvinnulífsins og boðaði ráðherra ýmsar jákvæðar nýjungar, til dæmis stóraukið framboð rafrænnar opinberrar þjónustu og að fyrirtæki, sem hefja starfsemi, séu fremur skyldug til að tilkynna þá starfsemi til stjórnvalda en að þau þurfi að sækja um leyfi fyrir starfseminni fyrirfram með tilheyrandi skriffinnsku. Frumvarp þessa efnis var boðað árið 2016 en náði ekki fram að ganga.

Þá var skipst á skoðunum um samkeppni ríkisfyrirtækja á borð við Isavia, Íslandspóst og RÚV við einkafyrirtæki og rætt vítt og breitt um tolla á matvörum.

Bjarni fór meðal annars yfir gögn um þróun tryggingagjaldsins.

Stjórnarmenn voru sammála um að skoðanaskiptin hefðu verið gagnleg og þökkuðu ráðherra heimsóknina á þennan tímamótafund. Bjarni hefur áður mætt á stjórnarfund FA, í nóvember 2013, en þá gegndi hann einnig embætti fjármálaráðherra.

Nýjar fréttir

Innskráning