Frestur til að skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga runninn út

19.10.2016

ThjodarsamtalÍ gær, 18. október, rann út sá frestur sem Alþingi gaf Gunnari Braga Sveinssyni landbúnaðarráðherra til að skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga, sem á að ljúka 2019.

Í lögum um breytingar á búvörulögum og fleiri lögum vegna búvörusamninganna, sem Alþingi samþykkti 13. september síðastliðinn, segir í bráðabirgðaákvæði: „Eigi síðar en 18. október 2016 skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Tryggja skal aðkomu afurðastöðva, atvinnulífs, bænda, launþega og neytenda að endurskoðuninni og skal henni lokið eigi síðar en árið 2019.“

Loforð um þjóðarsátt og þjóðarsamtal
Ákvæðið um stofnun samráðshópsins kom inn í lögin að tillögu meirihluta atvinnuveganefndar þingsins og var af hálfu Jóns Gunnarssonar, formanns nefndarinnar, kynnt sem viðleitni til að skapa „þjóðarsátt“ og „þjóðarsamtal“ um landbúnaðinn. Var ýmsum þeim hagsmunasamtökum, sem gagnrýndu verklag og innihald búvörusamninganna fyrr á árinu, þar með töldu Félagi atvinnurekenda, heitið aðild að samráðshópnum þannig að sem fjölbreyttastar raddir fengju að heyrast við endurskoðun landbúnaðarstefnunnar.

Skemmst er frá því að segja að ekkert erindi hefur borist frá atvinnuvegaráðuneytinu um skipan hópsins og engin tilkynning birst á vef þess, nú daginn eftir að lögbundinn frestur ráðherra til að skipa samráðhópinn rann út.

„Við vonum að þetta sé aðeins handvömm hjá ráðherra og að hópurinn verði skipaður á allra næstu dögum. Menn hljóta að vilja efna loforðin um þjóðarsátt og þjóðarsamtal fyrir kosningar,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

 

Nýjar fréttir

Innskráning