Gríman felld

17.12.2020

„Endahnútur“ Ólafs Stephensen framkvæmdastjóra FA í Viðskiptablaðinu 17. desember 2020.

Hagstætt verð á innfluttu kjöti vegna lægra verðs á tollkvóta.

Það er vinsælt þessa dagana að vera með grímu – og þarft. Jafnvel skylda. Þó eru þeir til sem hafa einmitt nú á aðventunni fellt grímu sem þeir hafa lengi borið.

Félag atvinnurekenda hefur lengi gagnrýnt það fyrirkomulag að bjóða upp tollkvóta fyrir búvörur; tollfrjálsar innflutningsheimildir sem samið er um í alþjóðasamningum. Vegna þess að mikil eftirspurn er eftir kvótunum, leitar verðið á þeim stöðugt upp á við og endar í tölu sem er rétt undir kostnaði innflutningsfyrirtækja við að flytja inn viðkomandi vöru á fullum tolli.

Hæstiréttur hefur staðfest þann skilning FA að útboðsgjaldið, sem innflytjendur greiða fyrir tollkvótana, sé skattur í skilningi stjórnarskrárinnar. Þannig eru útboð á tollkvótunum í raun ígildi tollverndar fyrir innlenda framleiðendur búvara og vinna gegn tollfrelsinu sem samið var um. Stjórnmálamenn hafa hins vegar látið eins og útboðsgjaldið komi vernd fyrir landbúnaðinn bara ekkert við, ekki frekar en ofurtollar á sumum búvörum. Þetta sé bara aðferð við að úthluta kvótum með sanngjörnum hætti.

Í fyrra var breytt um aðferð við útboð á tollkvótum. Þeir eru vissulega enn boðnir upp, en nýja aðferðin skilar a.m.k. um skeið þeim ávinningi til neytenda og innflytjenda að útboðsgjaldið lækkar frá fyrri aðferðinni. Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra flutti á dögunum frumvarp sem kveður á um að gamla aðferðin við útboð verði tekin upp tímabundið í eitt ár. Þetta sagði ráðherrann vera til að bregðast við höggi, sem innlend framleiðsla hefði fengið vegna fækkunar ferðamanna í kórónuveirufaraldrinum – með öðrum orðum var aðferðin við útboð á tollkvótum orðin verndaraðgerð fyrir landbúnaðinn.

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis bætti um betur og leggur til að gamla aðferðin verði látin gilda í þrjú ár. Meirihlutinn segir að frumvarpið feli í sér „skjótar tímabundnar aðgerðir til að vernda innlenda framleiðslu.“

Þá hefur sú gríma verið felld.

Nýjar fréttir

Innskráning