Lægri skattar og léttara regluverk

29.12.2021

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, svaraði spurningum Viðskiptamoggans 29. desember 2021: Hvaða breytingar myndir þú vilja sjá á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra þínum samtökum? – Hefur eitthvað breyst til batnaðar á árinu sem er að líða?

Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði hækkuðu um tæplega 70% á árunum 2015-2020.

Við hjá Félagi atvinnurekenda myndum vilja sjá efndir á fyrirheitum stjórnvalda um léttara regluverk og lægri skatta fyrir fyrirtækin, ekki sízt þau minni og meðalstóru. Það er stórmál fyrir atvinnurekendur að launatengdir skattar og gjöld lækki. Tímabundin lækkun tryggingagjalds á árinu 2021 hjálpaði til og hefði átt að vera varanleg.

Við viljum sjá heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni með viðskiptafrelsi að leiðarljósi; að einkaaðilar fái skýra heimild til að selja áfengi í smásölu og áfengisauglýsingar verði leyfðar. Um leið yrðu settar reglur um starfsemi, sem viðgengst í dag án þess að um hana séu til neinar reglur. Núverandi regluverk er óskýrt og götótt og fyrirtæki sitja ekki við sama borð.

FA  berst áfram fyrir aukinni fríverzlun við önnur ríki. Endurskoðun tollasamnings við Evrópusambandið skilar vonandi útvíkkun á tollfrjálsum viðskiptum með landbúnaðarvörur, í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Stjórnvöld ættu sömuleiðis að endurskoða fáránlegar reglur um tolla á t.d. blómum og aðföngum til innlendrar matvælaframleiðslu.

Stjórnvöld ættu að setja skýrar reglur um að ríkisrekin eða ríkisstyrkt fyrirtæki og stofnanir séu ekki í beinni samkeppni við einkaaðila. Sömuleiðis ætti að gera átak í stjórnarháttum opinberra fyrirtækja og tryggja að þar ráði hæfni hverjir stjórna, ekki flokksskírteini eða tengsl.

Byrði atvinnulífsins vegna fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði hefur þyngzt um meira en 70% frá því núverandi kerfi fasteignamats var tekið upp 2015. Nokkur sveitarfélög lækkuðu skattprósentuna á árinu en í langflestum tilvikum hækkuðu þau duglega tekjur sínar af skattinum. Á nýju ári þarf að fara fram samtal ríkisins, sveitarfélaga og fyrirtækja um nýtt, gegnsærra og stöðugra kerfi skattheimtu af atvinnuhúsnæði.

Taka ætti upp samkeppnismat á allri löggjöf um atvinnulífið, með sama hætti og gert var varðandi byggingariðnað og ferðaþjónustu í samstarfi við OECD. FA vill efla samkeppnislöggjöfina, til varnar minni og meðalstórum fyrirtækjum gagnvart ofríki opinberra aðila og markaðsráðandi fyrirtækja.

Síðast en ekki sízt þarf að breyta vinnubrögðum á vinnumarkaðnum og semja um launahækkanir sem atvinnulífið getur staðið undir og meiri sveigjanleika í kjarasamningum. Opinberir starfsmenn þurfa að sætta sig við að verða ekki framar leiðandi í hækkunum launakostnaðar.

 

Nýjar fréttir

Innskráning