Læknar og samtök lyfjafyrirtækja skrifa undir nýjan samning um samskipti

21.01.2020
Frá undirritun samningsins við setningu Læknadaga. Frá vinstri: Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri FA, Jakob Falur Garðarsson framkvæmdastjóri Frumtaka, Reynir Arngrímsson formaður Læknafélagsins og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ. (Mynd: Læknablaðið)

Félag atvinnurekenda, ásamt tvennum öðrum samtökum sem gæta hagsmuna lyfjafyrirtækja, undirritaði í gær nýjan samning við Læknafélag Íslands um samskipti lækna og fyrirtækja sem framleiða og flytja inn lyf.

Samningurinn var undirritaður við setningu Læknadaga í Hörpu. Aðild að honum eiga auk FA og LÍ Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda, og Samtök verslunar og þjónustu.

Samningurinn kemur í stað eldri samnings frá árinu 2013, en samningar um samskipti lyfjafyrirtækja og heilbrigðisstarfsfólks hafa verið í gildi árum saman. Markmið slíkra samninga er að hvor aðili sé hinum óháður í einu og öllu og samskipti og tengsl lækna og lyfjafyrirtækja gegnsæ og öllum ljós.

Skýrar reglur um fjárhagsleg tengsl og gegnsæi
Þannig er í samningnum fjallað m.a. um lyfjakynningar, fræðslufundi og námsferðir og hvernig greiðslum, viðurgjörningi og styrkjum skuli háttað. Samningurinn kveður á um gegnsæi í samskiptum lækna og lyfjafyrirtækja, þannig að þess sé t.d. ævinlega getið ef lyfjafyrirtæki styrki fund, námskeið eða málþing.

Samningar um rannsóknarsamstarf í lyfjarannsóknum skulu vera skriflegir og sé læknir í slíku samstarfi við lyfjafyrirtæki skal geta þess alls staðar þar sem við á, t.d. ef læknir skrifar grein eða flytur erindi um efnið. Taki læknir að sér ráðgjafarstörf fyrir lyfjafyrirtæki, skal það sömuleiðis vera samkvæmt skriflegum samningi og þess ævinlega getið ef læknir fjallar í máli eða á prenti um málefni sem tengjast lyfjafyrirtækjum.

Fulltrúar lyfjafyrirtækja mega ekki bjóða læknum fé eða gjafir fyrir lyfjakynningu og læknar mega ekki fara fram á slíkt.

Góð reynsla af regluverkinu
Nýi samningurinn byggist á nýuppfærðum reglum EFPIA, Evrópusamtaka frumlyfjaframleiðenda og Frumtaka um samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, heilbrigðisstofnanir og sjúklingasamtök.

Reynslan af reglum sem þessum er góð og hafa þær sannað gildi sitt í að eyða tortryggni og taka af vafa um mörk í samskiptum lyfjafyrirtækja og heilbrigðisstarfsfólks. Aðildarfyrirtæki FA, sem skuldbinda sig til að fara eftir þeim siðareglum sem fram koma eða vísað er til í samningnum, eru Alvogen, Actavis, Icepharma og Williams & Halls.

Samningur Læknafélags Íslands, Frumtaka, Félags atvinnurekenda og Samtaka verslunar og þjónustu

Reglur EFPIA og Frumtaka um samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, heilbrigðisstofnanir og sjúklingasamtök

Fréttatilkynning Frumtaka

Nýjar fréttir

Innskráning