Neyslu stýrt með sköttum?

02.12.2020

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Viðskiptamogganum 2. desember 2020.

Sykurlausu drykkirnir í körfunni eiga að bera neyslustýringarskatt, en ekki dísætu mjólkurvörurnar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sakleysisleg málsgrein sem hljóðar svo: „Skoðuð verður beiting efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu.“ Nú er komið í ljós hvað þetta þýðir á mannamáli. Starfshópur á vegum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra leggur til að lagður verði skattur í formi vörugjalds á ýmsar matvörur þannig að þær hækki í verði um 20%.

Einhver heldur kannski að þarna sé um að ræða sykurskatt eins og hefur verið tekinn upp í nokkrum löndum, en þegar tillögurnar eru skoðaðar nánar, kemur ljós að svo er ekki. Jú, skatturinn á að leggjast á sykraða gos- og svaladrykki, en líka sykurlausa drykki með sætuefnum og sódavatn, þ.e. ef það inniheldur sítrónusýru. Það er rökstutt með því að slíkir drykkir geti verið óhollir fyrir tennurnar. Skatturinn er þá líka tannverndarskattur.

Samt á hann ekki að leggjast á náttúrulega ávaxtasafa, þrátt fyrir að Landlæknisembættið vari við óhóflegri neyzlu þeirra vegna mögulegra glerungsskemmda. Hann á heldur ekki að leggjast á dísætar mjólkurvörur. Í 100 ml af Coca Cola eru 10,6 grömm af sykri, en í jafnmiklu magni af engjaþykkni 13-16 grömm og kókómjólk 8,7 grömm. Hann á að leggjast á kex og sætabrauð, orku- og prótínstykki en ekki ýmsar aðrar sykraðar vörur, eins og til dæmis dísætt kakóduft til að búa til sykraða drykki. Þannig mætti áfram telja.

Starfshópurinn vill til viðbótar hækka virðisaukaskatt á „óhollum“ vörum eins og gosi en fella hann niður á grænmeti og ávöxtum. Afleiðingin yrði þrjú skattþrep virðisaukaskatts á matvöru, 0%, 11% og 24%. Þar að auki yrði lagt 20% vörugjald á sumar sykraðar vörur og sumar ósykraðar. Þetta yrði gífurlega flókið og ógegnsætt kerfi, sem myndi stórauka vinnu og kostnað jafnt verzlunarfyrirtækja og opinberra stofnana, sem ættu að sjá um álagningu skatta og eftirlit með henni. Tekin væri algjör u-beygja á vegferð undanfarinna ára í átt til einföldunar kerfis neyzluskatta og stefnan tekin djúpt inn í vörugjaldafrumskóginn á ný. Enda studdi fulltrúi fjármálaráðuneytisins í hópnum ekki tillöguna um þrjú skattþrep í virðisaukaskatti.

Félag atvinnurekenda hefur bent á að starfshópurinn virðist ekkert hafa hugsað út í tæknilega útfærslu tillagnanna. Þegar vörugjöldin voru við lýði, lögðust þau á eftir tollskrárnúmerum og mikil vinna og fyrirhöfn fyrirtækja og tollayfirvalda, með tilheyrandi kostnaði, fór í að finna út í hvaða tollskrárnúmer vara skyldi flokkast. Það gat skipt miklu máli, því að ekki voru til dæmis lögð sömu vörugjöld á kókómalt eftir því hvort átti að blanda það í kalda eða heita mjólk og eins vöru gjöldin mismunandi á brauðristum eftir því hvort brauðið ristaðist lárétt eða lóðrétt. Núverandi tollskrá er að mörgu leyti úrelt þrátt fyrir sín 9.000 númer og blasir við að enn þarf að flækja hana og bæta við tollskrárnúmerum gangi þessi áform eftir, til dæmis af því að enginn hefur haft hugmyndaflug til að ímynda sér að vara tæki mismunandi gjöld eftir því hvort hún inniheldur sítrónusýru eða ekki.

Tillögur hópsins eru vondar og það sem er enn verra; ef þær komast í framkvæmd er búið að búa til fordæmi fyrir fleiri neyzlustýringarsköttum. Enginn hörgull er á matvælum sem eru óholl ef þeirra er neytt í óhófi. Við getum þá búizt við koffínskatti á te, kaffi og aðra koffíndrykki, transfituskatti á snakk og franskar, fituskatti á smjör og hangikjöt og þannig má lengi halda áfram. Ef við fetum áfram þessa braut verður skattlagning á mat frumskógur sem enginn ratar um.

Væri kannski bara skynsamlegra að hafa skattkerfið einfalt en upplýsa og fræða fólk um hollustu matvara? Slíkt hefur til dæmis stuðlað að hröðum samdrætti í neyzlu á sykruðu gosi undanfarinn áratug, án neyzlustýringarskatts.

Nýjar fréttir

Innskráning