Öll á sama báti

09.04.2020

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA í Fréttablaðinu 9. apríl 2020.

Eitt af því sem einkennir íslenzkt samfélag frá degi til dags er argaþras, þar sem sífellt er stillt upp andstæðum hagsmunum eða mismunandi sjónarmiðum. Síðustu vikur hafa hins vegar verið dálítið óvenjulegar. Það er ákveðin ró yfir fólki og kyrrð yfir samfélaginu. Vinnan og orkan fer í að halda samfélagi okkar gangandi við erfiðar og krefjandi aðstæður. Og hvað er það fyrsta sem við leggjum til hliðar? Jú, argaþrasið.

Í atvinnulífinu leggjast nú margir á eitt að halda aðfangakeðju hagkerfisins gangandi. Ótal fyrirtæki hafa þurft að endurskipuleggja starfsemina með það að markmiði að almenningur hafi áfram greiðan aðgang að daglegum nauðsynjum. Þetta er gríðarlega krefjandi verkefni.

Fyrirtæki hafa t.d. skipt upp húsnæði, breytt vöktum og þjálfað fólk til að ganga í störf samstarfsmanna til að tryggja órofinn rekstur. Ekki skiptir síður máli að tryggja örugga flutninga til landsins, nú þegar stórlega hefur dregið úr millilandaflugi, og viðhalda viðskiptasamböndum við erlenda birgja.

Bæði innlendir framleiðendur matvæla og annarra nauðsynja og innflytjendur þeirra eiga allt sitt undir því að virk milliríkjaverzlun gangi áfram snurðulaust fyrir sig, enda er aðfangakeðja flestra vara orðin meira og minna alþjóðleg. Það er því mikið gleðiefni að svo skuli vera, en þann árangur eigum við að þakka þúsundum einstaklinga sem hafa lagzt á eitt til að bregðast við aðstæðum og tryggja hagsmuni almennings.

Ástandið sem við stöndum frammi fyrir er mikilvæg áminning þess að matvælaöryggi Íslands og aðgangur neytenda að hvers konar nauðsynjavöru byggist á góðu samstarfi innflytjenda og innlendra framleiðenda, að Ísland sé virkur þátttakandi í alþjóðahagkerfinu og flutningar og viðskiptasambönd trygg. Það á alltaf við, en alveg sérstaklega í kreppuástandi eins og núna. Við erum öll á sama báti. Það væri ánægjulegt að þegar þetta er allt yfirstaðið yrðum við öll örlítið meðvitaðri um þá staðreynd þegar við finnum þörf fyrir að fara aftur í argaþrasið.

Nýjar fréttir

Innskráning