Reynt að kæfa rafrettubransann í fæðingu?

21.09.2018
Breitt vöruúrval er í sérverslunum með rafrettur og hundruð vörunúmera.

Félag atvinnurekenda hefur skrifað velferðarráðuneytinu bréf og krafist þess að reglugerð um rafrettur, sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra setti í byrjun mánaðarins, verði felld úr gildi. Reglugerðin fjallar um tilkynningar til Neytendastofu um markaðssetningu rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur sem innihalda nikótín. Samkvæmt reglugerðinni verða framleiðendur og innflytjendur rafrettna og áfyllinga fyrir þær að tilkynna allar vörur til Neytendastofu sex mánuðum áður en vörurnar eru settar á markað. Neytendastofa tekur síðan afstöðu til þess hvort varan uppfyllir öryggisstaðla. Gjaldið sem Neytendastofu er ætlað að taka fyrir hverja tilkynningu er 75.000 krónur.

Vörurnar CE-merktar
Rafrettur og áfyllingar hafa verið fluttar inn til landsins undanfarin ár án þess að þurft hafi að tilkynna stjórnvöldum það sérstaklega eða leita leyfa. Í yfirgnæfandi meirihluta tilvika eru vörurnar hins vegar CE-merktar, sem þýðir að framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili vöru ábyrgist að hún uppfylli þær grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði sem tilskipanir Evrópusambandsins kveða á um, og hafa vörurnar því undirgengist prófanir og eftirlit í því skyni. Samkvæmt lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, sem taka gildi 1. mars 2019, eru vörur hins vegar tilkynningaskyldar til Neytendastofu. Þar er jafnframt ákvæði um að Neytendastofu sé heimilt að innheimta gjald „til að standa undir kostnaði við móttöku þeirra og geymslu, meðhöndlun og greiningu upplýsinga sem hún tekur við.“

60-100 milljónir á búð
Samkvæmt upplýsingum sem FA hefur aflað frá félagsmönnum sem flytja inn og selja rafrettur, flytja flestar sérverslanir með rafrettur vörur sínar inn sjálfar. Algengt er að sérverslanir hafi 800-1300 vörunúmer á boðstólum. „Að senda inn tilkynningu fyrir sérhverja vöru er því í fyrsta lagi yfirgengileg skriffinnska samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og kostar í öðru lagi viðkomandi verslun 60-100 milljónir, sem allir sjá að myndi ríða slíkum rekstri að fullu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Einskis samráðs var leitað við innflytjendur eða seljendur rafrettna við samningu reglugerðarinnar og hún virðist byggð á algjörri vanþekkingu á vöruúrvali og -samsetningu í rafrettuverslunum. Eins og þessari reglugerð er stillt upp, er um að ræða tilraun heilbrigðisráðherra til að kæfa þessa atvinnugrein í fæðingu.“

Ekkert tilkynningagjald á tóbaksvörum
Ólafur bendir jafnframt á að engir útreikningar á kostnaði Neytendastofu við að taka við og vinna úr tilkynningum hafi fylgt reglugerðinni. „Stjórnvöld geta ekki skellt sköttum af þessu tagi á atvinnulífið án rökstuðnings. Það er síðan kaldhæðnislegt að það er líka skylt að tilkynna til opinberrar stofnunar ef fyrirtæki hyggst flytja inn tóbak, en fyrir þá tilkynningu er ekkert gjald tekið,“ segir Ólafur. „Eins og þetta lítur út við fyrstu sýn mun ríkið taka hundruð milljóna króna af þessari atvinnugrein vegna tilkynninga um vörur, sem nú þegar hafa verið í notkun hér á landi án þess að nein vandamál hafi komið upp. Fyrir þá fjármuni má byggja upp mjög myndarlegt skrifræðisbákn með mörgum ríkisstarfsmönnum hjá Neytendastofu. Er það fyrirætlun ráðherra?“

Takmarkanir á rafrettur styrkja stöðu sígarettunnar
Í bréfi FA til ráðuneytisins er vakin athygli á því að innflutningur og sala á rafrettum veiti tugum manna atvinnu og velti núorðið líklega um þremur milljörðum króna. Jafnframt er bent á að gott framboð af rafrettum og aukin notkun þeirra hafi leikið stórt hlutverk í fækkun tóbaksreykingamanna, en þeim fækkaði um 13 þúsund á milli áranna 2014 og 2017. „Það er ábyrgðarhluti ef stjórnvöld stuðla meðvitað að því að draga úr framboði á rafrettum eða gera notkun þeirra dýrari. Takmarkanir á notkun rafrettna styrkja stöðu sígarettunnar.“ segir í bréfi FA.

Í bréfinu segist félagið reiðubúið, ásamt innflytjendum og seljendum þeirra vara sem um ræðir, „að vinna með velferðarráðuneytinu að setningu nýrrar reglugerðar, sem þjónar því markmiði að tryggja öryggi neytenda, jafnframt því að taka mið af raunverulegum aðstæðum á markaði og heilbrigðri skynsemi.“

Bréf FA til velferðarráðuneytisins

Nýjar fréttir

Innskráning