Ríkið hækkar matartollana

15.07.2015

IMG_4609Atvinnuvegaráðuneytið hefur hækkað tolla, sem leggjast á innflutningskvóta á búvörum samkvæmt WTO-samningnum, um ríflega 7%. Tollarnir vega þungt í verðmyndun innfluttrar búvöru og hækkun þeirra mun því að öllum líkindum þýða verðhækkun til neytenda.

Samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) eru íslensk stjórnvöld skuldbundin að hleypa örlitlu hlutfalli innanlandsneyslu á búvörum inn til landsins á lægri gjöldum en þeim gríðarlega háu verndartollum en almennt eru lagðir á. Innflutningurinn er þó ekki tollfrjáls, heldur leggja stjórnvöld á hann magntoll, fasta krónutölu á hvert kíló innfluttrar vöru.

Magntollarnir á búvörur sem flytja má inn samkvæmt WTO-samningnum hækka um á bilinu 7,1 til 7,5% frá fyrra ári samkvæmt auglýsingu atvinnuvegaráðuneytisins um tollkvóta. Innflutningsheimildirnar gilda frá 1. júlí 2015 til 30. júní 2016 en ráðuneytið hefur þó raunar enn ekki lokið úthlutun þeirra þótt komið sé fram í júlí.

Hækkun tollanna styðst væntanlega við ákvæði 12. greinar tollalaga, þar sem landbúnaðarráðherra er heimilað að leggja á tollkvótana magntoll, sem nemur mismuninum á „ríkjandi heildsöluverði“ viðkomandi vöru á innanlandsmarkaði og innflutningsverði. Þessi lagaregla er sett til verndar innlendum framleiðendum og þýðir í raun að lækki innflutningsverð búvöru jafnar ríkið það út með því að hækka tollinn. Ef heildsöluverð innlendra birgja hækkar eltir ríkið það jafnframt með tollahækkun sem gerir innflutninginn dýrari. Þannig er komið í veg fyrir að neytendur hagnist á hagstæðri þróun innflutningsverðs.

Dæmi um hækkun matartolla
Vara Magntollur á kíló 2014 Magntollur á kíló 2015 Hækkun
Nautakjöt 895 960 7,26%
Svínakjöt, reykt og beinlaust 589 633 7,47%
Kjúklingakjöt 267 286 7,12%
Kalkúna-, gæsa- og andakjöt 366 393 7,38%
Smjör 359 386 7,52%
Ostur 191 205 7,33%
Svínapylsa 940 1011 7,55%

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að þessar tollahækkanir nú sýni hvað löggjöfin um innflutning búvöru sé gölluð og fráleit. „Á tíma þegar allir ættu að leggjast á eitt að halda verðhækkunum í skefjum til að auka kaupmátt og tryggja ávinning nýgerðra kjarasamninga hækkar ríkið álögur á innfluttar búvörur. Það er ekki nóg með að matartollar séu undanskildir í áformum stjórnvalda um niðurfellingu tolla, þeir eru beinlínis hækkaðir. Þetta kerfi æpir á endurskoðun,“ segir Ólafur.

Auglýsing atvinnuvegaráðuneytisins um WTO-tollkvóta fyrir búvörur 2015

Auglýsing atvinnuvegaráðuneytisins um WTO-tollkvóta fyrir kjötvörur 2014

Auglýsing atvinnuvegaráðuneytisins um WTO-tollkvóta fyrir smjör og osta 2014

Auglýsing atvinnuvegaráðuneytisins um WTO-tollkvóta fyrir unnar kjötvörur 2014

Nýjar fréttir

Innskráning