Samkomulag um að segja ekki upp samningum

01.03.2017
Frá undirritun kjarasamnings FA og LÍV/VR í maí 2015. Frá vinstri: Guðmundur S. Maríusson, formaður kjararáðs FA, Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri, Magnús Pétursson ríkissáttasemjari, Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR og Guðbrandur Einarsson formaður LÍV.

Félag atvinnurekenda annars vegar og VR og Landssamband verzlunarmanna hins vegar hafa undirritað samkomulag um að segja ekki upp kjarasamningi aðila þrátt fyrir forsendubrest. Samkomulagið er sambærilegt við samkomulag sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið undirrituðu í gær, enda voru sambærileg ákvæði um samningsforsendur og uppsögn í samningi FA við verzlunarmenn og í samningum SA og ASÍ. Gera má ráð fyrir að skrifað verði undir sambærilegt samkomulag við aðra viðsemjendur FA innan ASÍ á næstu dögum.

Í samkomulagi FA og VR/LÍV kemur fram að sú forsenda samningsins um að launastefna og launahækkanir samninganna verði stefnumarkandi fyrir aðra kjarasamninga, hafi ekki staðist. Launahækkanir í kjarasamningum sveitarfélaga við Félag grunnskólakennara og Félag tónlistarskólakennara hafi verið meiri en felist í sameiginlegri launastefnu SALEK-samkomulagsins svokallaða. Þessi forsendubrestur hefði heimilað að samningnum yrði sagt upp í gær, en niðurstaðan varð að fresta uppsagnarheimildinni um ár.

„Á árinu 2017 kemur fjöldi kjarasamninga til endurnýjunar. Rúmist niðurstaða þeirra innan launastefnu rammasamkomulagsins fellur niður sú uppsagnarheimild sem nú er frestað. Í því felst að aðrir samningsaðilar á vinnumarkaði muni fallast á að launaliðir síðustu kjarasamninga FG og FT skapi ekki fordæmi fyrir hækkanir hjá öðrum,“ segir í samkomulaginu. Gangi þetta ekki eftir, hefur samninganefnd VR/LÍV heimild til að setja upp samningnum fyrir kl. 16 þann 28. febrúar 2018.

Samkomulag FA og VR/LÍV

Nýjar fréttir

Innskráning