Sóttvarnareglur hertar en ekkert bólar á stuðningsaðgerðum

13.01.2022
Ólafur Stephensen ræddi við Magdalenu Önnu Torfadóttur, fréttamann Markaðarins.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, gagnrýnir að stjórnvöld hafi nú í tvígang tilkynnt harðar sóttvarnaaðgerðir, sem bitna mjög á mörgum fyrirtækjum, en ekkert bóli á stuðningsaðgerðum fyrir atvinnulífið. Flestar stuðningsaðgerðir fyrir fyrirtæki, sem voru í gildi, runnu sitt skeið um áramótin.

Ólafur sagði í viðtali við Markaðinn á sjónvarpsstöðinni Hringbraut að stjórnvöld hefðu nú í tvígang tilkynnt mjög hertar sóttvarnaaðgerðir sem kæmu í mörgum tilvikum afskaplega illa niður á fyrirtækjum. „Enn sem komið er hefur ekkert komið til mótvægis, engar stuðningsaðgerðir á borð við þær sem flestar runnu út um síðastliðin áramót. Það var lengt í úrræðinu um endurgreiðslu launa manna í sóttkví, sem var nú kannski eins gott, nú þegar tugir þúsunda eru í einangrun og sóttkví. En það þarf fleira að koma til og við vonum að við förum að sjá einhver útspil frá stjórnvöldum hvað það varðar. Það eru ekki síst minni fyrirtækin sem þurfa mjög á því að halda.“

Rætt var um sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda og sagðist Ólafur þeirrar skoðunar að fyrr hefði átt að gera þá breytingu að þríbólusettir væru undanþegnir sóttkví. FA hefði viljað sjá breitt samkomulag um vinnusóttkví, en það mál fór í uppnám á gamlársdag vegna andstöðu Alþýðusambandsins. Ólafur sagði að breytingin á reglum um sóttkví hefði komið að einhverju leyti til móts við það. „En þetta býr auðvitað til afskaplega erfiða stöðu í mörgum fyrirtækjum, mönnunarvanda og tilheyrandi kostnað, þegar svona feiknalega margir eru í einangrun og sóttkví. Það er vandi sem vindur því miður bara upp á sig.“

Þarf að horfa á stöðu fleiri fyrirtækja en í ferðaþjónustu
Að mati Ólafs þarf að horfa á stöðu fyrirtækja í fleiri greinum en ferðaþjónustu varðandi t.d. þann skuldavanda sem orðið hefur til í kórónuveirufaraldrinum. „Það þarf að skoða stuðningslánin sem hafa verið veitt með ríkisábyrgð, kjör þeirra og endurgreiðsluskilmála. Það var lengt í þessum lánum og endurgreiðslum síðastliðið vor, ég held að það geti þurft að ganga lengra í því. Það er rétt að það sem var rekstrarvandi framan af faraldrinum hefur víða breyst í skuldavanda og ekki bara í ferðaþjónustunni heldur líka í öðrum greinum.“

Ýmislegt fleira var rætt í viðtalinu, til dæmis afstaða FA til stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, barátta félagsins fyrir viðskiptafrelsi á áfengismarkaði og horfur á vinnumarkaðnum.

Umfjöllun Markaðarins á frettabladid.is

Viðtalið við Ólaf í Markaðnum (hefst á 15.20)

 

Nýjar fréttir

Innskráning