„Staðreyndir“ Sigurðar Inga

18.08.2017

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í Fréttablaðinu 18. ágúst 2017.

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifaði undir búvörusamninga sem kveða á um hækkun á tollum á innfluttum mjólkurvörum. Mynd: ANR

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra og landbúnaðarráðherra, umgengst staðreyndir býsna kæruleysislega í grein sem hann skrifaði í Fréttablaðið síðastliðinn þriðjudag. Þar segir: „Staðreyndin er sú að búið er að fella niður tolla og lækka. Því er ekki lengur hægt að halda því fram að háir tollar stuðli að háu matvælaverði.“

Skoðum þessa fullyrðingu nánar. Einu matartollarnir sem voru felldir niður á síðasta kjörtímabili voru af vörum úr jurtamjólk og af kartöflusnakki – sem vissulega hefur lækkað í verði. Aðrir matartollar eru áfram einhverjir þeir hæstu í heimi.

Síðasta ríkisstjórn gerði samning við Evrópusambandið um gagnkvæma niðurfellingu tolla og stækkun tollkvóta. Sá samningur mun, ef rétt er á haldið, hafa jákvæð áhrif á matarverð. Meinið er bara að hann hefur ekki tekið gildi og gerir það ekki fyrr en um mitt næsta ár. Hann hefur því ekki haft nokkur einustu áhrif á matvælaverð á Íslandi.

Búvörusamningurinn, sem Sigurður Ingi gerði við Bændasamtökin, hefur hins vegar skert hlut neytenda. Þar var samið um að hækka duglega tolla á innflutt mjólkur- og undanrennuduft og osta. Félag atvinnurekenda hefur reiknað út að þannig hækkaði kostnaðarverð innflytjanda á algengri tegund af osti sem flutt er inn til landsins um 285 krónur á kílóið. Þá er eftir að taka tillit til annarra opinberra gjalda og álagningar, þannig að hækkun til neytenda er enn meiri.

Í íslenzku tollskránni er alla jafna lagður 30% verðtollur á kjöt og mjólkurvörur og svo bætist við magntollur, föst krónutala á kíló sem yfirleitt nemur nokkur hundruð krónum. Samanlagt geta þessir tollar lagzt út á 170-180% rauntoll. Íslenzka ríkið tryggir með öðrum orðum að við komuna til landsins hækki kostnaðarverð innfluttrar vöru hátt í þrefalt. Tollvernd nemur helmingi útsöluverðs alifuglakjöts svo dæmi sé tekið. Ofurtollar eru einn meginskýringarþátturinn í háu matvöruverði á Íslandi, þótt þeir séu ekki eina skýringin.

Þetta eru staðreyndirnar sem formaður Framsóknarflokksins skautar svo létt yfir í grein sinni.

Nýjar fréttir

Innskráning