Tollverndin er ríkust á Íslandi

12.11.2020
Samanburður á þróun tollverndar á Íslandi og í samanburðarlöndum. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Í nýrri skýrslu um þróun tollverndar, sem unnin var á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og birt á þriðjudag, kemur skýrt fram að tollvernd fyrir innlendan landbúnað er ríkust á Íslandi af vestrænum ríkjum. Þetta stangast mjög á við villandi útreikninga, sem forystumenn innan Bændasamtaka Íslands hafa látið frá sér fara að undanförnu og eiga að sýna fram á að tollvernd sé hér lítil.

Í skýrslunni eru gögn frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) notuð til að bera saman tollvernd á milli landa og reiknað svokallað NPCc-hlutfall. Það er það verð sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar sem hlutfall af innflutningsverði, þ.e. heimsmarkaðsverði vörunnar auk flutningskostnaðar. Ef hlutfallið er 3 er verð til framleiðenda þrisvar sinnum (200%) hærra en verð á heimsmarkaði, en ef það er einn er verð til framleiðanda jafnt heimsmarkaðsverði. Í samanburðinum er þetta hlutfall reiknað fyrir vegið meðaltal helstu landbúnaðarafurða sem hvert ríki framleiðir.

Niðurstaðan er sú að tollvernd á Íslandi er langt umfram það sem tíðkast að meðaltali í aðildarríkjum OECD, eða 1,77 að meðaltali árin 2017-2019. Það þýðir að afurðaverð til bænda er að jafnaði 77% hærra en innflutningsverð sambærilegrar vöru ef engar hindranir væru á innflutningi. Hlutfallið fyrir Noreg er 1,73, fyrir Sviss 1,42, fyrir OECD í heild 1,12 og fyrir Evrópusambandið er það 1,04. Það þýðir t.d. að í Evrópusambandinu er tollverndin aðeins ígildi um 4%.

Myndin sem birtist með grein formanns LK. Smelltu á myndina til að  stækka hana.

Marklaus samanburður formanns LK
Þetta stangast mjög á við mynd, sem birtist í Bændablaðinu á dögunum með grein eftir Herdísi Mögnu Gunnarsdóttur, nýkjörinn formann Landssambands kúabænda. Þar er tekinn samanburður á milli Íslands, Noregs, Sviss og ESB og borið saman „hlutfall tollskrárnúmera sem bera toll“. Ekki er tekið fram hvort þetta séu tollskrárnúmer sem eiga við búvörur eða allar vörur, en tölurnar benda til þess að átt sé við öll númer í tollskránni. „Stundum ber umræðan hér á landi þess merki að við teljum íslenska framleiðslu ofurverndaða með tollum. En það er alls ekki raunin.  Ef við horfum á tollaumhverfi ESB, Noregs og Sviss/Liechtenstein má sjá að Ísland er með hæsta hlutfall tollskrárnúmera sem bera engan toll sem og lægstu meðaltollana. Það er nú öll tollverndin,“ segir í grein Herdísar. Bændasamtökin hafa áður vísað til svipaðra útreikninga til að rökstyðja að tollvernd sé lítil á Íslandi.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, bendir á að þessi samanburður sé marklaus. „Í fyrsta lagi hefur Ísland fellt einhliða niður tolla af öllum vörum öðrum en matvörum og blómum. Það væri því nær að horfa eingöngu til þeirra tollskrárnúmera sem eiga við búvörur. Í öðru lagi er það svo að jafnvel þótt það væri gert, blasir við að búvöruframleiðsla t.d. Sviss og Evrópusambandsins er langtum fjölbreyttari en á Íslandi og í Noregi, en almennt leggja Evrópuríki einhverja tolla á búvörur sem þau framleiða sjálf. Í þriðja lagi er hin alþjóðlega tollskrá barn síns tíma og fjöldi tollnúmera gefur mjög skakka mynd af milliríkjaviðskiptum. Þessi mynd segir okkur því nákvæmlega ekkert um raunverulega tollvernd. Nýja skýrslan gefur mun raunsannari mynd af tollvernd íslensks landbúnaðar og verður að gera ráð fyrir að Bændasamtök Íslands taki undir það mat sem þar kemur fram, enda áttu þau fulltrúa í hópnum sem samdi skýrsluna,“ segir Ólafur.

Þróun tollverndar á Íslandi eftir framleiðsluvörum. Smelltu á myndina til að stækka hana.

Í skýrslunni kemur fram að tollvernd íslenskra búvara samkvæmt þessum mælikvarða hafi dregist talsvert saman frá aldamótum, en þó aukist heldur á ný síðastliðinn áratug, eins og sjá má á mynd 4-3 úr skýrslunni hér að ofan. Tollverndin er mismikil fyrir mismunandi afurðir eins og sjá má á mynd 4-3, sem einnig er tekin úr skýrslunni.  Langmest er tollverndin í alifuglakjöti eða 328%.

Innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn
Jafnframt er í skýrslunni fjallað um að aukinn innflutningur búvara á undanförnum árum sé ekki síst til kominn vegna þess að innlend framleiðsla hafi ekki annað eftirspurn, sem jókst hratt með fjölgun ferðamanna. „Við ættum að vera þakklát fyrir að hægt hafi verið að flytja inn búvörur á tollkvótum til að mæta eftirspurn, því að annars hefði afleiðingin orðið skortur og verðhækkanir, sem hefði bitnað á neytendum og alveg sérstaklega á ferðaþjónustunni,“ segir Ólafur.

Nýjar fréttir

Innskráning