Um innflutning á blómum – rangfærslur leiðréttar

09.05.2019
Skortur var á túlipönum í verslunum fyrir síðustu jól og verðið hátt. Í Danmörku kostar túlipanabúntið yfirleitt undir 1000 íslenskum krónum.

Axel Sæland, blómabóndi á Espiflöt, fullyrðir í Fréttablaðinu í dag að innflutningur á afskornum blómum sé ekki nauðsynlegur og að innlend framleiðsla geti vel staðið undir íslenskum blómamarkaði. Hann fullyrðir jafnframt að dregið hafi úr tollvernd fyrir íslenska blómabændur. Þetta eru ekki réttar fullyrðingar.

Aukin tollvernd á innflutningskvótum
Tollar á afskornum blómum eru almennt mjög háir. Á þeim er 30% verðtollur og auk þess lagður 95 króna magntollur á hvert stykki. Þetta þýðir til dæmis að á tíu túlipana búnt sem kostar 600 krónur í innkaupum leggst 1.130 króna tollur (180+950). Þessir tollar gera innflutning afar óhagkvæman og nánast útilokaðan. Árlega er hins vegar auglýstur takmarkaður innflutningskvóti á lægri tolli. Í afskornum blómum er hann um 300.000 stykki á ári, eða 15% af ársframleiðslu blómabóndans á Espiflöt.

Axel kvartar í fréttinni undan útgáfu þessa kvóta sem hann segir ekki hvetjandi fyrir íslenska blómabændur: „Það var settur tollkvóti fyrir einhverjum árum, tollur settur á hvert stykki, einhver krónutala. Sú krónutala hefur alls ekki haldið gildi sínu þar sem hún fylgir ekki verðlagi en það hefur breyst síðastliðin 20 ár.“

Hið rétta er að innflutningur á tollkvóta ber engan magntoll (krónutölu á stykki), heldur eingöngu 30% verðtollinn. Undanfarin ár hefur verið umframeftirspurn eftir tollkvótunum, sem þýðir að innflytjendur þurfa að greiða útboðsgjald fyrir kvótann. Útboðsgjaldið er ígildi tollverndar og hefur hún því fremur farið vaxandi undanfarin ár þegar horft er til útboða á tollkvótum.

Túlipanaskortur fyrir jól
Axel segir innlenda framleiðslu vel geta staðið undir íslenskum blómamarkaði og innflutningur sé ekki nauðsynlegur. Það er ekki rétt. Fyrir síðustu jól var til dæmis mikill skortur á túlipönum í verslunum og verð þeirra hækkaði. Framboð af boðlegri vöru frá innlendum framleiðendum var lítið. Innflytjendur leituðu þá eftir því við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að tollar á túlipönum yrðu lækkaðir tímabundið. Svar ráðuneytisins var það sama og í kartöflumálinu á dögunum; að nóg væri til af túlipönum í landinu þótt neytendur upplifðu á eigin skinni að þeir væru ekki til í búðunum. Tollar voru ekki lækkaðir og ekkert varð af innflutningi.

Samkeppnin er í þágu neytenda
Í máli Axels kemur svo í raun fram af hverju innflutningur á blómum er ekki óþarfur, heldur þvert á móti nauðsynlegur. Blómabóndinn kvartar undan því að vegna hins takmarkaða innflutnings blóma á tollkvótum geti innlendir framleiðendur ekki leyft sér verðhækkanir á vörum sínum. Það er nú einmitt málið; samkeppni frá innflutningi heldur innlendum framleiðendum við efnið í þessum geira atvinnulífsins eins og öðrum og neytendur njóta góðs af. Samt er það svo að verð afskorinna blóma er til muna hærra á Íslandi en í nágrannalöndunum. Þannig fæst tíu túlipana búnt á vel undir 1.000 íslenskum krónum í Danmörku en á Íslandi er útsöluverðið oftast um og yfir 2.000 krónur. Svigrúm framleiðenda til að hagræða hjá sér fremur en að hækka verð er því væntanlega nokkurt.

Viðtal við framkvæmdastjóra FA í Fréttablaðinu

Nýjar fréttir

22. apríl 2024

Innskráning