Útboðstímabil WTO-tollkvóta lengt aftur

Tollkvóti fyrir innflutt alifuglakjöt er 59 tonn, en ætti að vera 548 tonn ef hann hefði fylgt þróun innanlandsneyslu.

Ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarafurða hefur lagt til við landbúnaðarráðherra að útboðstímabil tollkvóta samkvæmt WTO-samningnum verði lengt á ný, úr sex mánuðum í eitt ár. Félag atvinnurekenda fagnar þessari breytingu, enda hefur félagið rökstutt ýtarlega fyrir ráðuneytinu að fjölgun útboða á tollkvóta og stytting tímabilsins valdi innflytjendum margvíslegu óhagræði og leiði til hærra útboðsgjalds, sem aftur leiðir til hærra verðs til neytenda á þeim vörum sem fluttar eru inn á tollkvótum. Ákvörðunin um lengingu útboðstímabilsins og fjölgun útboða var á sínum tíma tekin án nokkurs samráðs við neytendur eða innflytjendur búvara.

Sama gildi um ESB-tollkvótana
Í rökstuðningi nefndarinnar segir að WTO-tollkvótarnir hafi verið óbreyttir að magni til frá árinu 1995 og sé um tiltölulega lítið magn að ræða í samanburði við tollkvóta samkvæmt tvíhliða samningi Íslands og Evrópusambandsins. „Þegar úthlutun WTO tollkvótans var skipt í tvennt á sínum tíma var það einkum gert til að reyna að tryggja jafnara flæði innfluttra vara á íslenskan markað og að draga þar með úr mögulegum árstíðarsveiflum í innflutningi. Nú hefur fengist ákveðin reynsla á þessu fyrirkomulagi. Framleiðendur íslenskra afurða hafa verið ánægðir en sumir kaupmenn og heildsalar hafa lýst yfir óánægju með fyrirkomulagið. Telur ráðgjafanefnd úthlutun til 12 mánaða í senn vera betra fyrirkomulag, með tilliti til smæðar tollkvótans,“ segir í rökstuðningi nefndarinnar. 

Félag atvinnurekenda hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu athugasemdir, þar sem þessari tillögu er fagnað, en jafnframt lagt til að sambærileg ákvörðun verði tekin varðandi útboðstímabil ESB-tollkvótanna, enda gildi þar sömu lögmál og reynslan sé sú sama; verð á tollkvótunum hefur hækkað mikið eftir að útboðstímabili var breytt.

Tollkvótarnir ættu að vera margfalt stærri
Í athugasemdum FA er jafnframt bent á að smæð WTO-kvótanna helgist af því að þeir miðast enn við 5% af innanlandsneyslu eins og hún var árin 1986-1988. Tollkvótarnir hafi því færst fjær þeim markmiðum WTO-samningsins að efla fríverslun, auka markaðsaðgang viðskiptaríkja Íslands, efla samkeppni, auka vöruúrval og lækka verð til neytenda. Til glöggvunar sendi FA ráðuneytinu eftirfarandi töflu:

Meðalneysla 1986-1988, tonnTollkvóti 5%, tonnNeysla árið 2016, tonn5% af neyslu 2016, tonn
Nautgripakjöt1.897955.501275
Svínakjöt1.282647.845392
Alifuglakjöt1.1845910.964548

Eins og sjá má ættu tollkvótarnir að vera margfaldir, hefðu þeir fylgt þróun neyslu í landinu.

FA hefur ekki aðgang að nýrri tölum en frá 2011-2013 varðandi innanlandsneyslu á ostum, en hún var þá 5.732 tonn, samanborið við 2.350 tonn að meðaltali árin 1986-1988. Tollkvóti sem væri 5% af innanlandsneyslu á ostum ætti þá að vera hið minnsta tæplega 300 tonn, en er í reynd 125 tonn.

Félagið hvetur atvinnuvegaráðuneytið til að taka þessa stöðu til skoðunar. Félagið hefur áður vakið athygli á því að innlendir framleiðendur fengu „leiðréttingu“ á tollvernd á mjólkurvörum miðaða við gildistöku WTO-samningsins 1995. Neytendur hafa hins vegar enga leiðréttingu fengið.