Verður aftur brotið á fræðslufyrirtækjum með ríkisstyrkjum til sumarnáms?

13.04.2021
Skjáskot af vef Endurmenntunar Háskóla Íslands í fyrrasumar. Námskeiðin sem hér sjást eru öll í beinni samkeppni við námskeið á vegum einkafyrirtækja og öll niðurgreidd af menntamálaráðuneytinu. Verðið er 3.000 krónur, en það treystir ekkert einkarekið fræðslufyrirtæki sér til að keppa við.

Félag atvinnurekenda hefur sent Lilju D. Alfreðsdóttur menntamálaráðherra erindi og spurst fyrir um áform ráðuneytisins um að leggja í annað sinn hundruð milljóna króna til sumarnáms í framhalds- og háskólum vegna kórónuveirufaraldursins. FA kvartaði til bæði Samkeppniseftirlitsins og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna ríkisstyrkja til sumarnáms í fyrra, en þeir voru m.a. nýttir til að niðurgreiða um tugi prósenta námskeið endurmenntunardeilda háskólanna, sem haldin eru í beinni samkeppni við námskeið einkarekinna fræðslufyrirtækja. FA taldi þetta brot á lögum um opinbera háskóla, samkeppnislögum og EES-samningnum.

Tvöfalt áfall fræðslufyrirtækjanna
Síðastliðið sumar voru námskeið endurmenntunardeildanna, sem alla jafna kosta tugi þúsunda, boðin á 3.000 krónur með niðurgreiðslu frá ríkinu. „Við þetta niðurgreidda verð gátu einkarekin fræðslufyrirtæki engan veginn keppt og voru ýmis námskeið hjá fyrirtækjunum felld niður af þessum sökum, með tilheyrandi tekjutapi. Segja má að fyrirtækin hafi orðið fyrir tvöföldu áfalli í faraldrinum; annars vegar urðu þau af tekjum og urðu að leggja í kostnað við endurskipulagningu á starfsemi sinni vegna samkomutakmarkana, hins vegar urðu þau að takast á við aukna samkeppni frá endurmenntunardeildum háskólanna, sem niðurgreidd var af ríkinu,“ segir í erindi FA til menntamálaráðherra.

Rifjað er upp að í framhaldi af sendingu erindisins áttu FA og félagsmenn þess í jákvæðum samskiptum við menntamálaráðuneytið, þar sem kom fram vilji þess til að leitast við að rétta samkeppnisstöðu einkarekinna fræðslufyrirtækja. „Það veldur FA því nokkrum vonbrigðum að áform um ríkisstyrkt sumarnám skuli kynnt á ný án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við félagið eða félagsmenn þess í hópi fræðslufyrirtækja,“ segir í erindi félagsins. Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins verður styrkur þess til sumarnáms hækkaður úr 500 milljónum króna í fyrra í 650 milljónir í ár.

Stjórnvöld lágmarki samkeppnislegan skaða
Á opnum streymisfundi FA 11. febrúar síðastliðinn, „Samkeppnin eftir heimsfaraldur“ var m.a. fjallað um áhrif ríkisstyrkja til sumarnáms á samkeppni á fræðslumarkaði. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, ræddi þar um mikilvægi þess að stjórnvöld mætu samkeppnisleg áhrif aðgerða, sem gripið væri til vegna kórónuveirufaraldursins, og útfærðu stuðninginn þannig  að samkeppnislegur skaði væri lágmarkaður. „Sama aðferðafræði á að vera leiðarljós stjórnvalda þegar þau útfæra til dæmis fjárveitingar til námskeiðahalds ríkisrekinna skóla,“ sagði forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

FA fer í bréfinu fram á svör ráðuneytisins við eftirfarandi spurningum:

  1. Hefur ráðuneytið lagt mat á áhrif þess fyrirkomulags ríkisstyrkja til náms, sem viðhaft verður í sumar, á samkeppni á fræðslumarkaði?
  2. Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið af hálfu ráðuneytisins til að gæta að samkeppnisstöðu einkarekinna fræðslufyrirtækja og tryggja að ríkisstyrkur til háskólanna rúmist innan ákvæða laga um opinbera háskóla, samkeppnislaga og EES-samningsins?
  3. Hefur ráðuneytið tekið til skoðunar tillögu félagsins um ávísanakerfi, sambærilegt ferðagjöfinni, sem tryggi að hægt sé að velja á milli námskeiða hjá háskólum sem njóta ríkisframlaga og námskeiða einkarekinna fræðslufyrirtækja?
  4. Hefur útfærsla fyrirhugaðra ríkisstyrkja verið borin undir Samkeppniseftirlitið eða Eftirlitsstofnun EFTA?

Erindi FA til menntamálaráðherra

Nýjar fréttir

Innskráning