Virk samkeppni í þágu endurreisnar

18.05.2020

Grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, í Vísbendingu 

Efnahagskreppan sem siglir í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 veirunnar er sú dýpsta sem heimsbyggðin hefur tekizt á við í tæpa öld, eða frá því að kreppan mikla reið yfir í lok þriðja áratugar síðustu aldar. Í hamförum á borð við heimsfaraldurinn beinist athyglin réttilega að björgunarstarfinu; að reyna að halda fyrirtækjum á floti og verja störf. Það má ekki verða til þess að það gleymist að hafa í huga hvaða áhrif aðgerðir stjórnvalda geta haft á efnahagslífið og heilbrigði þess til lengri tíma litið. Það er alveg sérstaklega mikilvægt að stjórnvöld átti sig á þeim samkeppnishindrunum, sem leitt geta af kreppunni, og hafi í huga hvernig megi vinna gegn þeim. Virk samkeppni er ein forsenda þess að Ísland komist hratt upp úr öldudal kreppunnar.

Ógnanir við virka samkeppni
Áhyggjuefnin eru mörg. Í fyrsta lagi er alls ekki ólíklegt að núverandi kreppa leiði til samþjöppunar eignarhalds í atvinnulífinu þegar smærri fyrirtæki lenda í erfiðleikum og annaðhvort hætta starfsemi eða stærri keppinautar, með greiðari aðgang að fjármagni, kaupa þau upp. Hvort tveggja getur leitt til samþjöppunar á viðkomandi mörkuðum. Í öðru lagi er tilhneiging til verðsamráðs þekkt afleiðing af skyndilegu falli í eftirspurn, eins og mörg fyrirtæki hafa orðið fyrir á undanförnum vikum. Í þriðja lagi hefur reglum samkeppnislaga verið vikið til hliðar í þágu baráttunnar við heimsfaraldurinn og afleiðingar hans, aðallega með því að Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samstarf keppinauta sem annars væri bannað. Það er nauðsynlegt til skamms tíma litið en má alla jafna ekki verða til þess að slakað sé á banninu til lengri tíma. Í fjórða lagi eru komnar á kreik, jafnvel af hálfu ráðamanna, hugmyndir um nýjar hindranir í vegi virkrar samkeppni, til dæmis í formi hærri tolla á innflutning til að vernda innlenda framleiðslu.

Kreppan veiti ekki skjól
Það er mikilvægt að málflutningur stjórnvalda sé á þann veg að ekki misskiljist að kreppan veiti ekki skjól fyrir samkeppnislögum, rannsóknum eða eftirgrennslunum samkeppnisyfirvalda, nema þá í mjög afmörkuðum og tímabundnum tilvikum. Í einhverjum tilvikum gæti samstarf fyrirtækja, sem hefur verið heimilað vegna heimsfaraldursins, fallið til lengri tíma undir undanþáguákvæði samkeppnislaga sem heimila slíkt samstarf ef það er í þágu hagsmuna neytenda. Í öðrum tilvikum ættu slíkar undanþágur hins vegar að vera tímabundnar og falla úr gildi þegar ógnin sem stafar af útbreiðslu veirunnar dvínar.

Þær aðgerðir sem stjórnvöld ráðast í til stuðnings atvinnulífinu þurfa að taka mið af því að tryggja rekstrargrundvöll smærri fyrirtækja, ekki síður en þeirra stærri. Útvíkkun á öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, með hækkun á stuðningslánum með ríkisábyrgð til minni og meðalstórra fyrirtækja, er gott dæmi um skref í þá átt, en meira þarf að koma til.

Endurtökum ekki mistökin
Hér í upphafi var kreppan sem við stöndum nú frammi fyrir borin saman við kreppuna miklu, sem svo hefur verið kölluð. Það er mikilvægt að læra af sögu hennar, en endurtaka ekki mistökin sem gerð voru þá. Viðbrögð stjórnvalda í Bandaríkjunum, þar sem kreppan átti upptök sín með verðbréfahruninu á Wall Street 1929, voru meðal annars að slaka á eftirliti með samkeppni, samrunum og hringamyndun og hækka tolla. Flestir hagfræðingar eru nú sammála um að þessi stefna hafi lengt í kreppunni – ekki bara í Bandaríkjunum heldur á heimsvísu – um mörg ár.

Meira en næg gögn liggja fyrir um skaðsemi verndarstefnu í viðskiptum undanfarna öld, gagnsemi frjálsra milliríkjaviðskipta og þann hag, sem almenningur og atvinnulíf hafa af virkri samkeppni fyrirtækja, til þess að kæfa í fæðingu hugmyndir um tolla eða aðrar  viðskiptahindranir til að „efla“ íslenzkt atvinnulíf. Reynslan af fjármálakreppunni fyrir rúmum áratug ætti líka að nýtast til að búa þannig um hnútana að skellurinn, sem atvinnulífið fær óhjákvæmilega, hafi sem minnst áhrif á virka samkeppni.

Ekki rétti tíminn til að veikja eftirlitið
Við þessar aðstæður er augljóslega ekki rétti tímapunkturinn til að veikja Samkeppniseftirlitið. Ákveðnir tilburðir til þess hafa hins vegar verið uppi, undir þrýstingi frá stærri fyrirtækjum og samtökum þeirra. Í drögum að frumvarpi ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra  til breytingar á samkeppnislögum var til dæmis lagt til að Samkeppniseftirlitið yrði svipt heimild sinni til að bera niðurstöður úrskurðarnefndar samkeppnismála undir dómstóla. Sú tillaga var harðlega gagnrýnd og var góðu heilli horfin úr frumvarpinu þegar það var lagt fram á Alþingi.

Þar er hins vegar önnur tillaga um að fella úr lögum heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar skv. 16. gr. c í núgildandi samkeppnislögum. Umrædd heimild er nauðsynleg til að tryggja virka markaði á mikilvægum sviðum atvinnulífsins. Heimildin stendur í vegi þess að slíkir markaðir geti starfað neytendum til tjóns og tryggir því hagsmuni neytenda og atvinnulífsins í heild. Við núverandi aðstæður, þar sem töluverð óvissa er um þróun mála á ýmsum mikilvægum mörkuðum, væri mikið óráð að þessi tillaga næði fram að ganga. Margar aðrar tillögur í frumvarpi ráðherra um aukna skilvirkni í starfsemi Samkeppniseftirlitsins horfa hins vegar til framfara og ættu ekki að verða umdeildar.

Öflugra samkeppniseftirlit og víðtækara samkeppnismat
Nú er einnig löngu tímabært að setja lögbundna málsmeðferðarfresti í fleiri samkeppnismálum en samrunamálum. Til þess verður að styrkja Samkeppniseftirlitið. Staðreyndin er sú að holskefla samrunamála, sem gæti verið framundan, myndi að óbreyttu þýða að meiripartur tíma þessarar mikilvægu eftirlitsstofnunar yrði bundinn í slíkum málum og umkvartanir smærri fyrirtækja vegna t.d. samráðs eða misnotkunar á markaðsráðandi stöðu stærri fyrirtækja sætu á hakanum. Veita þarf viðskiptalífinu fyrirsjáanleika og réttaröryggi auk þess að veita Samkeppniseftirlitinu nauðsynlegt aðhald í störfum þess.

Undir forystu ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur verið í gangi svokallað samkeppnismat á löggjöf um ferðaþjónustu og byggingariðnað, í samstarfi við OECD. Það verkefni ætti að útvíkka til fleiri geira atvinnulífsins, í þeim tilgangi að fækka samkeppnishömlum og greiða fyrir öflugri endurreisn íslenzks efnahagslífs eftir COVID-kreppuna.

Nýjar fréttir

Innskráning