Lögfræðiþjónusta

Á undanförnum árum hefur lögfræðiþjónusta FA orðið einn af hornsteinum í rekstri félagsins. Félag atvinnurekenda veitir félagsmönnum sínum lögfræðilega ráðgjöf og stuðning í viðskiptum þeirra og þar eru viðskipti við hið opinbera ekki undanskilin. Þjónusta Félags atvinnurekenda á þessu sviði felst m.a. í ráðgjöf, námskeiðahaldi sem og að reka mál fyrir einstaka félagsmenn eða hópa. Lögfræðiþjónusta FA tekur því að sér margvísleg verkefni á sviði verslunar og viðskipta og hefur reynt að bæta stöðugt við þá þjónustu sem félagið veitir á því sviði. Í könnunum meðal félagsmanna hefur komið í ljós að almenn ánægja er meðal félagsmanna með umrædda þjónustu. Undanfarin þrjú ár hefur langstærstur hluti félagsmanna nýtt sér lögfræðiþjónustuna.

Í síðustu árlegu þjónustukönnun FA, sem gerð var í janúar 2020, kom fram að tveir þriðjuhlutar félagsmanna höfðu notað lögfræðiþjónustuna á undanförnum 12 mánuðum og yfirgnæfandi meirihluti, eða 82%, var ánægður eða mjög ánægður með þjónustuna. Niðurstöðurnar má sjá á meðfylgjandi mynd.

Lögmaður FA sinnir meðal annars hagsmunagæslu fyrir félagsmenn fyrir dómstólum. Í umfangsmiklum dómsmálum er FA í samstarfi við Málflutningsstofu Reykjavíkur, þar sem félagsmenn FA njóta sérstakra vildarkjara. Í málum sem lögmaður FA hefur rekið fyrir dómstólum hefur meðal annars verið tekist á um lögmæti stjórnvaldsákvarðana, útboðsmál, skatta og tolla ríkisins, réttmæti tollflokkunar, vinnuréttarleg álitamál o.fl.

Lögfræðiþjónusta FA hvetur félagsmenn til að leita til sín með öll þau álitamál sem þeir komast í tæri við í rekstri sínum, jafnt stór mál sem smá. Við erum ykkur ávallt innan handar.